Egó var hljómsveit sem stofnuð var í september 1981 og starfaði frá þeim mánuði til 13. apríl 1984 og svo aftur í nýrri útgáfu frá 2004. Upprunalega sveitin var skipuð þeim bræðrum Bubba og Bergþóri Morthens, Þorleifi Guðjónssyni, Jóhanni Davíð Richardssyni og Ragnari Sigurðsyni. Vinur Bubba úr Utangarðsmönnum, Rúnar Erlingsson, átti eftir að slást í hópinn en það var ekki fyrr en rétt undir lokin.

Saga (1981-1984)

breyta

Rétt eftir stofnun hljómsveitarinnar var trommari fundinn, Jóhann Davíð Richardsson. Eftir að sveitin flutti sig úr æfingarplássi í Söginni í Borgartúni í Súðarvoginn slóst Ragnar Sigurðsson gítarleikari með í för. Í viðtali við Dagblaðið og Vísi 23. janúar 1982 sagðist Bubbi ætla að taka upp 14 laga plötu með félögum sínum í Egó

Reyndar finnst mér alveg synd að geta ekki tekið upp fleiri lög að sinni. Við erum með 20-25 lög sem ég hefði viljað koma öllum í plast, en það verður að velja og hafna.

Stuttu eftir tónleikaferð sem sveitin tók rangsælis um landið hætti Ragnar í sveitinni og var ákveðið að Beggi yrði eini gítarleikari sveitarinnar. Í lok janúar 1982 voru fréttir að segja að Magnús Stefánsson, fyrrverandi Utangarðsmaður, væri á leiðinni til Brimkló. Bubbi átti svo eftir að hafa hringt snimmhendis í Magga og stuttu síðar gekk hann í Egó, en Jóhann hætti í staðinn. 10. febrúar 1982 hélt hljómsveitin í hljóðver til að taka upp plötu sem Tómas M. Tómasson, fyrrverandi stuðmaður, sá um upptökur á. Fyrsta plata sveitarinnar, Breyttir tímar, kom út 1. apríl 1982 og fór beint á toppinn á vinsældarlistum.

Breyttir tímar er viðeigandi titill á fyrstu plötu Egó. Ekki aðeins hefur tónlistin hjá hljómsveitinni tekið 180° beygju frá því hún hélt af stað í haust undir bárujárnsflagginu. Heldur hefur tónlist höfuðpaursins, Bubba Morthens, tekið heljarstökk frá því á dögum hans með Utangarðsmönnunum sálugu. Stökk til hins betra, leyfi ég mér að segja Sigurður Sverrisson, gagnrýnandi Morgunblaðsins.

Inga Sólveig, eiginkona Bubba á þessum tíma, gerðist umboðsmaður hljómsveitarinnar stuttu eftir að Breyttir tímar kom út. Egó birtist í fyrstu kvikmynd Friðrik Þórs Friðrikssonar, Rokk í Reykjavík, sem frumsýnd var 10. apríl 1982. Myndin varð umdeild stuttu eftir að hún kom út. Bæði fyrir viðtal við Bubba og atriði þar sem að meðlimir hljómsveitarinnar Bruni BB aflífuðu fimmtán hænur með pappírshníf. Seinna árs 1982 var Þorleifur Guðjónsson, sem hefði verið meðlimur hennar frá stofnun, rekinn úr henni. Bubbi hefur kallað þá ákvörðun hafa verið ranga því að "með Þorleifi hafi horfið úr sveitinni ákveðin gleði." Önnur plata Egósins, sem fékk nafnið Í mynd, var hljóðrituð í september og október og kom út 17. nóvember 1982.

Nýja LP-platan, Í mynd, afhjúpar veikleika Bubba Morthens sem leiðandi manns í íslenskri rokkmúsík enn betur. Það er tiltölulega ánægjulegt að hlusta á þessa plötu, hún rennur þægilega í gegn, og það er einmitt veikleiki hennar... Ef platan hefði komið sem fyrsta plata hljómsveitar held ég að hún hefði ekki aflað þeirri hljómsveit verulegra vinsælda eða margra aðdáenda. Ef svo heldur áfram er ég hræddur um að hljómsveitin endi sem andstæða þess sem Utangarðsmenn voru: Uppreisnarmenn. Árni Daníel Júlíusson, gagnrýnandi Vikunnar.

Árið 1983 var í spilunum að þýða nokkur Ególög yfir á ensku. Ekkert varð úr þeim spilum en eitt af lögunum sem komu út úr þýðingunum fékk nafnið "Lítið serbneskt blóm" sem átti eftir að verða Serbinn af plötunni Frelsi til sölu sem kom út þremur árum síðar. Daginn áður en að hljómsveitin ætlaði að fara af stað í tónleikaför í Skandinavíu hætti Magnús Stefánsson í sveitinni. Í kjölfarið gengu trommuleikarinn Jökull Úlfsson og hljómborðsleikarinn Gunnar Rafnarsson í hljæomsveitina en svo kom það á þannig að Jökull var ekki á lausu þá svo að sveitin tók sér frí. Nokkrum mánuðum seinna kom platan Ný spor út sem innihélt lagið Strákarnir á Borginni, sem Bubbi hafði keypt af vinum hans í Egó til að setja það á plötuna.

Bubbi kom og söng og strákarnir sitja inn í kontrólherberginu og segja: Já, þetta er helvíti gott, tökum þetta einu sinni aftur. Þá sagði Bubbi bara: Nei, þetta er nógu andskoti gott fyrir Steinar. Þannig að öll þriðja platan var sungin í einni töku hjá Bubba, það var bara hvert lag bara sungið einu sinni Bjarni Friðriksson, umboðsmaður Egó á þeim tíma.

Upptökum á Egóplötunni, sem hafði vinnuheitið "Bless" en átti eftir að heita einfaldlega Egó, lauk í byrjun apríl 1984 og platan kom út þann 13. apríl sama ár.

Þessi þriðja plata Egósins kemur svo sannarlega á óvart. Þyngri, kröftugri og í alla staði betri en hinar... Egóplatan er góð og stendur sannarlega undir nafni sem besta Egóplatan. Jón Viðar Sigurðsson, gagnrýnandi Þjóðviljans.

Plötur og smáskífur

breyta

Breiðskífur.

breyta
 • Breyttir tímar (1982)
 • Í mynd (1982)
 • Egó (1984)
 • 6. október (2009)

Safnplötur.

breyta
 • Frá upphafi til enda (2001) safnplata

Smáskífur.

breyta
 • Kannski var bylting vorið 2009 (2009) *

*Komst ekki inn á lokaplötuna.

Lagalistar á plötum Egósins

breyta

Breyttir tímar

 1. Stórir strákar fá raflost
 2. Ráð til vinkonu
 3. Tungan
 4. Minnismerki
 5. Breyttir tímar
 6. Vægan fékk hann dóm
 7. Sieg Heil
 8. Móðir
 9. Jim Morrison

Í mynd

 1. Fjöllin hafa vakað
 2. Við trúðum blint
 3. Sætir strákar
 4. Manilla
 5. Dauðakynslóðin
 6. Mescalin
 7. Guðs útvalda þjóð
 8. Í spegli Helgu
 9. Dancing Reggae With Death

Egó

 1. Blýhöfuð
 2. Albert og Lúcý
 3. Forsíðan
 4. Karlrembubragur
 5. Ekki senda mér rósir
 6. Spegill listarinnar
 7. III heimurinn
 8. Reykjavík brennur

Frá upphafi til enda

 • 1.Stórir strákar fá raflost
 • 2. Móðir
 • 3. Sieg Heil
 • 4. Vægan fékk hann dóm
 • 5. Fjöllin hafa vakað
 • 6. Sætir strákar
 • 7. Mescalin
 • 8. Í spegli Helgu
 • 9. Blýhöfuð
 • 10. III heimurinn
 • 11. Reykjavík brennur
 • 12. Sat ég inni á Kleppi

6. október

 1. Vonin er vinan mín
 2. Að elska er að finna til
 3. Í hjarta mér
 4. Hvenær sem er
 5. Aldan (Gerði mitt besta)
 6. Ástin ert þú á litinn
 7. Áður en dagarnir hverfa
 8. Fallegi lúserinn minn
 9. Sjötti október
 10. Engill ræður för
 11. Hrunið (Skömmin sefur á milli þeirra)