Eftirlíking

Eftirlíking (eða stæling) er þegar eitt líkir eftir öðru, hvort sem er til listar, eitt er grunnur að öðru, eða til að endurframkalla frumverkið í annarri mynd.

Eftirlíking getur til dæmis verið þegar eitthvert frumverk er endurskapað, annaðhvort til að ná fram samskonar áhrifum, eða þá að grunnur frumverksins er hafður til hliðsjónar en annað verk kallað fram. Dæmi um hið fyrrnefnda er til dæmis þegar listamaður stælir verk meistaranna til að komast betur í tengsl við verkin og reyna sig við handbragð þeirra. Hið síðarnefnda er þegar menn byggja verk á gömlum grunni, eins og t.d. þegar Virgill skrifaði Eneasarkviðu á grunni Hómerskviða. Hið fyrrnefnda bætir oft litlu við upphaflegu verkin, eru oftast aðeins flatar eftirlíkingar (stælingar), en hið síðarefnda er nýtt verk á gömlum grunni .

Eftir að myndavélin kom til sögunnar tóku margir listamenn að berjast á móti andlausum eftirlíkingum viðfangsefnanna (sbr. portrettmyndir eða landslagsmálverk), en poplistamenn endursköpuðu eftirlíkingarnar með því að stækka þær og stilla upp sem listaverk. Stundum var eftirmyndin af hlutnum sjálfum stillt upp óbreytt, sbr. verk Andy Warhols Campbell's Soup eða Marcel Duchamp þegar hann tók mígildi og skírði Fountain. Um er að ræða tvær ólíkar aðferðir eftirlíkinga. Hið síðarnefnda flokkast þó sem tilbúið listaverk (found art).

Annarskonar eftirlíkingarBreyta

Eftirlíking getur líka verið þegar listin reynir að herma lífið. Samkvæmt frægri skilgreiningu Aristótelesar er harmleikurinn (tragedían) t.d. eftirlíking (mímesís) atburðakeðju sem vekur með áhorfendum vorkunn og skelfingu. Oscar Wilde var aftur á móti með þá kenningu í Hnignun lyganna að lífið hermdi eftir listinni (Life imitating art).

Eftirlíkingar í smækkaðri mynd eru stundum gerðar sem dægradvöl eða til hliðsjónar frummyndinni. Litlar eftirlíkingar frægra skipa eða módel af frægum flugvélum eru oft listasmíði í sjálfu sér. Slíkar eftirlíkingar ganga út á að sýna frummyndina í þægilegri stærð og jafnvel eftirlíkingar af frumverkum sem ekki eru lengur til, eins og t.d. Títaník.

Orð geta verið eftirlíkingar af hljóði, eins og orðið voffi í merkingunni hundur.

Tengt efniBreyta