Dularfulla klaustrið
Dularfulla klaustrið (franska: L'abbaye truquée) er 22. bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún kom út árið 1972. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Fournier. Hún var gefin út á íslensku árið 1980 og telst áttunda í röðinni í íslenska bókaflokknum.
Söguþráður
breytaTöframaðurinn Ító Kata frá Japan er í heimsókn hjá Sval og Val þegar útsendarar Þríhyrningsins berja að dyrum. Þeir freista þess að fá Sval og Val til að ganga til liðs við glæpasamtökin, en þegar það gengur ekki svæfa þeir þá með karamellum sem sprautaðar voru með svefnlyfi. Þeir ræna Ító Kata í því skyni að kúga félagana til samstarfs.
Svalur og Valur komast skjótt á sporið og finna aðsetur glæpamannanna í rústum yfirgefins klausturs. Reynast þrjótarnir hafa fullt í fangi við að halda Ító Kata í prísundinni, þaðan sem hann sleppur í sífellu. Eftir að Svalur og Valur mæta á svæðið ákveður höfuðpaurinn að flýja og sprengja klaustrið í loft upp. Íkorninn Pési gerir sprengjuna óvirka. Þeir hafa hendur í hári þrjótsins, en hann sleppur frá þeim á nýjan leik og sagan endar á að Svalur, Valur og Ító Kata sofna úti í móa eftir að hafa í ógáti gleypt meira af eitruðu karamellunum.
Fróðleiksmolar
breyta- Þetta er önnur sagan þar sem glæpasamtökin Þríhyrningurinn eru í aðalhlutverki. Áður höfðu Svalur og Valur átt í höggi við Þríhyrninginn í Sprengisveppnum. Að þessu sinni ber Þríhyrningurinn lítil merki þess að vera öflug aljóðleg glæpasamtök, heldur minnir fremur á hóp fáráða.
- Foringi Þríhyrningsins nefnist Manfreð Steinhólm í íslensku þýðingunni en Charles Atan á frummálinu.
Íslensk útgáfa
breytaDularfulla klaustrið var gefin út af Iðunni árið 1980 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var áttunda bókin í íslensku ritröðinni.