Des haricots partout
Des haricots partout (íslenska: Baunir út um allt) er 29. Svals og Vals-bókin og sú níunda og síðasta eftir Fournier. Hún var framhald bókarinnar Kodo le tyran og birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval árið 1979 og kom út á bókarformi árið 1980. Bókin hefur enn ekki verið gefin út á íslensku.
Söguþráður
breytaSagan hefst á að tvöfalt morðtilræði herforingjans Kodo og uppreisnarmanna í Catung við mafíuútsendarann fara út um þúfur. Svalur og uppreisnarmenn vita nú að útsendarinn er í raun Valur. Þeir skiptast á skilaboðum við hann með hjálp bréfdúfu og undirbúa uppreisn. Til deilna kemur milli félaganna og uppreisnarmanna þegar þeir síðarnefndu segjast ætla að halda áfram ópíumframleiðslu eftir valdatöku sína, en Svalur heitir að leita annarra leiða fyrir þjóðfélag þeirra.
Svalur kemst með leynd á fund Sveppagreifans sem beitir tengslum sínum hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni til að kalla saman alþjóðlegt teymi vísindamanna. Á meðan í Catung tekst uppreisnarmönnum að eyðileggja ópíumræktina með hjálp upplýsinga frá Val. Herforingjastjórnin býr sig undir að taka á móti hergögnum frá mafíunni, en þar reynast á ferðinni landbúnaðartæki frá alþjóðasamfélaginu og kröftugar baunir, sem Sveppagreifinn og félagar höfðu þróað. Alþýðan rís upp og hrekur Kodo hershöfðingja frá völdum.
Fróðleiksmolar
breyta- Á lokasíðu bókarinnar bregður Óróreu fyrir og verður hún vitni að því þegar hershöfðinginn Kodo, nú grænmetissali, rekst á Sval og Val á förnum vegi og grýtir þá með tómötum.
- Um það leyti sem Fournier lauk við Des haricots partout hóf hann að teikna nýja sögu sem bar vinnuheitið La maison dans la mousse. Ekki liggja nema fáeinar blaðsíður fyrir af þeirri sögu, því Fournier sagði upp störfum eftir að útgefandi hans fór fram á að öðrum listamanni eða listamönnum yrði falið að sjá um sagnaflokkinn til hliðar við hann.