David Thomas
David Arthur Thomas er enskur skútuhönnuður sem er þekktastur fyrir hönnun lítilla og stórra kjölbáta sem hafa notið mikilla vinsælda. Hann er sjálfur þekktur kappsiglingamaður. Meðal þekktra skútutegunda sem hann hefur hannað eru Hunter-bátarnir og Sigma 33 og Sigma 38, sem eru allir þægilegir skemmtibátar sem hafa jafnframt reynst góðir keppnisbátar. Hann átti líka þátt í hönnun stórrar stálskútu fyrir BT Global Challenge, Challenge 67.
Bátar David Thomas hafa notið mikilla vinsælda og verið algengir á Íslandi. Hann hefur tvisvar verið fenginn til að hanna skútur sérstaklega fyrir íslenska siglingamenn. Secret 26-bátarnir hans, smíðaðir á Íslandi frá 1987, hafa átt mikilli velgengni að fagna í siglingakeppnum við Ísland.