Danmarks nationale cykelruter
Danmarks nationale cykelruter er landsnet hjólaleiða í Danmörku. Leiðir 1-10 voru teknar í notkun árið 1993. Síðar var leið 12, hringleið við Limafjörð, bætt við. Danska vegagerðin og hjólasamtökin Cyklistforbundet stóðu fyrir verkefninu en framkvæmdir voru í höndum amtanna. Eftir að þau voru lögð niður árið 2007 hefur viðhald leiðanna verið í höndum sveitarfélaga. Auk þessara leiða er þétt net annarra hjólaleiða í Danmörku.
Leiðirnar eru 11 talsins og ná samtals yfir 4.233 km. Þær eru aðallega á almennum vegum þar sem umferð er lítil eða á aðskildum hjólastígum meðfram stærri vegum. Nokkur hluti þeirra er á aflögðum vegum og malarstígum. Númerakerfið er þannig sett upp að sléttar tölur eru leiðir sem liggja austur-vestur en oddatölur leiðir sem liggja norður-suður. Leiðir 10 (á Borgundarhólmi) og 12 (umhverfis Limafjörð) eru hringleiðir. Leiðirnar eru merktar með bláum skiltum með hvítum jaðri, hjóli og númeri leiðarinnar á rauðum grunni.