Fjölklórað díbensódíoxín

(Endurbeint frá Díoxín)

Fjölklórað díbensódíoxín, almennt kallað díoxín, er hópur þrávirkra lífrænna fjölhalógenaðra efnasambanda með grind myndaða úr díbensódíoxíni. Díoxín eru mengunarvaldar í iðnvæddum samfélögum. Þau eru fitusækin og safnast því upp í lífverum og geta valdið fæðingargöllum, stökkbreytingum og krabbameini. Díoxínsambönd eru mjög stöðug og brotna hægt eða ekki niður í náttúrunni. Þau eru tregbrennanleg og eru því oft notuð sem eldhemjandi efni.

Formgerð fjölklóraðs díbensódíoxíns þar sem fjöldi klóratóma, n og m, getur verið frá 0 upp í 4.

Díoxín myndast sem aukaafurð í framleiðslu lífrænna klóríða, við brennslu efna sem innihalda klóríð eins og til dæmis fjölvínýlklóríðs (PVC), klórdíoxíðs sem notað er við bleikingu á pappír og eins við náttúrlegar aðstæður eins og í eldgosum og skógareldum. Mikið díoxín myndast við brennslu sjúkrahússsorps. Fjölmörg dæmi eru um díoxínmengun af völdum iðnframleiðslu allt frá 19. öld. Rannsóknir sýna að magn díoxíns er meira í fólki á iðnvæddum svæðum.

Stokkhólmssamningurinn um þrávirk lífræn efni kveður á um að aðildarríki samningsins geri allt sem hægt er til að draga úr notkun slíkra efna og útrýma uppsprettum þeirra. Ísland fullgilti samninginn árið 2002.

  Þessi efnafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.