Norðlægur slönguhaus

(Endurbeint frá Channa argus)

Norðlægur slönguhaus (fræðiheiti: Channa argus) er fiskur sem tilheyrir geisluggum. Hann er ferskvatns-borri sem kemur af ætt slönguhausa, en það er ætt sem inniheldur tvær ættkvíslir, Channa og Parchanna, sem saman innihalda tæplega 30 gerðir af slönguhausum.

Norðlægur slönguhaus

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríkið (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Chordata)
Ættbálkur: Borrar (Anabantiformes)
Ætt: Slönguhausar (Channidae)
Ættkvísl: Channa
Tegund:
C. argus

Tvínefni
Channa argus

Slönguhausinn kemur upphaflega frá Kína, Kóreu, og Rússlandi. Þar að auki hefur hann verið fluttur inn til annarra landa, m.a. Úsbekistan, Turkmenistan, Japans og til Bandaríkjanna, þar sem hann er talin mjög ágeng tegund.

Slönguhausinn getur lifað í frekar súrefnissnauðum aðstæðum, en algengt er að finna hann í grunnum tjörnum og mýrum sem hafa gruggugt eða gróðurríkt undirlag. Hann á það einnig til að halda sig til í skurðum, lónum, vötnum og ám. Á veturna sækist slönguhausinn í dýpri vötn.

Þrátt fyrir að vera ferskvatnsfiskur þá þolir hann að lifa á stöðum þar sem saltstyrkur er lítill (eða um 15-18 ppt). Þeir hafa óvenjulegt öndunarkerfi sem gerir þeim kleift að geta andað bæði í vatni og á landi, og geta þeir því lifað á landi í allt að 3-4 daga þar sem lofthitinn er á bilinu 10-15°C.

Slönguhausinn er ránfiskur og lifir hann því aðallega á öðrum fiskum sem geta þó náð allt að 33% af stærð hans. Fiskurinn liggur á botninum og bíður eftir bráð sinni, en algengast er að hann veiði sér til matar á morgnanna og kvöldin.

Útlit og vöxtur

breyta

Slönguhausinn er langur og fremur þunnur fiskur sem verður venjulega um 85-100 cm langur og 1-2 kg þungur. Stærri fiskarnir geta þó orðið allt að 150 cm og 8 kg þungir. Hann hefur bakugga sem liggur langsum eftir fisknum og hefur um 49-50 geisla, og fremur langan kviðugga með 31-32 geislum.

Höfuð hans er tiltölulega flatt og eru augu hans yfir miðjum efri kjálka. Munnur hans er stór og nær aftur fyrir augu. Tennur hans eru margar og mjóar og líkjast vígtönnum í neðri góm.

Slönguhausinn er yfirleitt gullbrúnn eða brúnn að lit með dökkum blettum. Blettir hans eru hringlóttir á líkamanum en liggja langsum eftir andlitinu, og skilja þeir þannig að efri og neðri líkama.

Slönguhausinn er að líkamsbyggingu líkur norður-ameríska eðjufisknum, en algengt er að þessum tveimur fiskum sé ruglað saman. Þessa fiska má meðal annars greina í sundur út frá staðsetningu ugganna, en þeir eru aftar á eðjufisknum en slönguhausnum.

Hrygning

breyta

Slönguhausinn verður kynþroska í kringum 2-3 ára aldurinn, þegar fiskurinn hefur náð um 30 cm lengd. Hrygning á sér yfirleitt stað í júní og júlí, en getur þó byrjað örlítið fyrr eða endað aðeins seinna. Hann hrygnir snemma á morgnanna, yfirleitt í grunnu vatni. Hrygnan hrygnir um 1300-1500 eggjum í einu, en hún getur hrygnt allt að 5 sinnum á ári. Eggin eru gul eða appelsínugul á litinn.

Báðir foreldrar gæta eggjana og vernda þau gegn rándýrum. Hitastig vatnsins ræður því hversu fljót eggin eru að klekjast út, en algengast er að það gerist innan þriggja daga. Því kaldara því lengri tíma tekur klakningin.

Nýting og veiðar

breyta

Slönguhausinn er aðallega notaður til matargerðar, en síðustu áratugi hefur hann orðið algeng sjón á matarmörkuðum og veitingarstöðum. Sérstaklega eru þeir vinsælir til veiði og matargerðar í Asíu.

Fyrsti fiskurinn sem fannst í Bandaríkjunum var fundinn í tjörn árið 2002. Talið var að fiskurinn væri ógnun fyrir aðra fiskistofna í tjörninni og var því tekin ákvörðun um að tæma tjörnina í þeirra von um að útrýma tegundinni, sem tókst. Þegar tjörnin hafði verið tæmd fundust 2 fullorðnir fiskar ásamt 100 litlum fiskum.

Í ljós kom að maður hefði keypt slönguhaus á matarmarkaði í New York í kringum árið 1998 og hent honum í tjörnina. Það varð til þess að hann fjölgaði sér. Þessa tegund má finna víða í tjörnum í Bandaríkjunum, en fólki er ráðlagt að drepa þá slönguhausa sem þeir finna til að koma í veg fyrir frekari fjölgun.

 
Veiði á norðlægum slönguhaus í Kína
 
Veiði á norðlægum slönguhaus í Suður-Kóreu

Heimsafli

breyta

Slönguhausinn er í dag mest veiddur í Kína, en hann hefur verið veiddur þar í fremur miklu magni frá 2003. Veiðin byrjaði í 150.000 tonnum, en hefur síðan þá aukist töluvert og var komin upp í rúmlega 500.000 tonn árið 2016. Suður-Kórea hóf veiðar á slönguhausnum árið 1977 og jókst hún mikið til að byrja með. Veiðin náði hámarki árið 1995 þegar þeir veiddu um 900 tonn, en hefur hún síðan þá minnkað mikið og var hún árið 2015 komin niður í kringum 400 tonn.

Heimildir

breyta
  • Luna, Susan M. (e.d.). Channa argus.[1]
  • Fuller, P.L., Benson, A.J., Nunez, G., Fusaro, A., and Neilson, M. (2016). Channa argus.[2]
  • Courtenay, Walter R., Jr., Williams, James D. (2004). Snakehead- A Biological Synopsis

and Risk Assessment, bls 45-51.[3]

  • Roy's Farm. (e.d.). Northern Snakehead Fish Characteristics.[4]
  1. Channa argus[óvirkur tengill], Skoðað 20. janúar 2019.
  2. Channa argus, Skoðað 16. janúar 2019.
  3. Channa argus, Skoðað 16. janúar 2019.
  4. Northern Snakehead Fish Characteristics, Skoðað 20. janúar 2019.