Champignac: Enigma, (Fullt nafn: Pacôme Hégésippe Adélard Ladislas, Comte de Champignac: Enigma) (Íslenska Sveppagreifinn: dulmálsvélin) er sjálfstætt ævintýri um Sveppagreifann úr sagnaflokknum um Sval og Val, en söguþráðurinn fylgir að miklu leyti kunnum sögulegum atburðum. Höfundurinn er listamaðurinn Béka og teiknarinn er David Etien. Líklega mun sagan marka upphafið að nýrri ritröð. Bókin kom út í Belgíu árið 2018, en hefur ekki verið þýdd á íslensku.

Söguþráður

breyta

Sagan hefst í Berlín árið 1938 þar sem Adolf Hitler fær kynningu á Enigma dulmálsvélinni og lætur Foringinn sér vel líka. Því næst er stokkið fram um tvö ár. Sveppagreifanum berst torkennilegt bréf á sveitasetur sitt, sem virðist ritað á dulmáli. Greifinn á ekki í miklum vandræðum með að ráða bréfið, sem reynist fela í sér skilaboð um að fara strax til Lundúna.

Sveppagreifinn hyggst leggja strax af stað, en þýskur herflokkur kemur aðvífandi og hertekur setrið. Hann heldur þó för sinni áfram, sleppur um borð í bát og fer yfir Ermarsundið. Í Bretlandi liggur leiðin til Bletchley Park þar kynnist hann ungri skoskri konu, Blair MacKenzie og verður þeim þegar vel til vina.

Í Bletchley Park hitta þau prófessor Black sem útskýrir viðfangsefni þeirra: að leysa leyndarmál Enigma dulkóðunarvélarinnar sem Bandamenn höfðu komið höndum yfir. Greifinn og Blair takast á við verkefnið, en gefa sér þó einnig tíma til að sletta úr klaufunum á þorpskránni.

Þau kynnast sérlunduðum en skarpgreindum samstarfsmanni sínum Alan Turing saman tekst þeim að leysa dulmálið. Með þessu móti geta Bandamenn nú fylgst með fjarskiptum þýska hersins. Þau uppgötva að Þjóðverjar áætla að gera árás á skipalest á ferð um Atlantshafið, en nú eru góð ráð dýr: ef skipalestin yrði vöruð við árásinni myndu Þjóðverjar uppgötva að dulmálið hafi verið leyst. Sveppagreifinn og Blair vilja ekki una þessu og bruna á fund með Winston Churchill sem telur að ekkert sé hægt að gera. Í samræðum Churschills, Sveppagreifans og Blair kviknar þó sú hugmynd að líklega sé dulmálskóða Enigma-vélarinnar að finna á hinu hernumda setri í Sveppaborg.

Greifinn, Blair og prófessor Black halda aftur til Belgíu. Þar rekast þau á ýmsa kunna íbúa úr Sveppaborg sem gengnir eru til liðs við andspyrnuhreyfinguna. Saman tekst þeim að stela dulmálshandbókinni og snúa aftur til Bretlands. Með búnað Turings og handbókina að vopni geta Bandamenn nú fylgst með öllum fjarskiptum Þjóðverja, sem ræður úrslitum í stríðinu.

Sveppagreifinn og Blair eru ástfangin og njóta lífsins í Bretlandi. Sögunni lýkur hins vegar á hóteli í Brüssel þar sem tveir sovéskir njósnarar ráða ráðum sínum. Í ljós kemur að Sovétmenn hafa útsendara í Bletchley Park. Fastlega er gefið í skyn að framhald verði á sögunni.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Þeir Béka og Etien höfðu árið 2010 freistað þess að semja myndasögu um Enigma dulmálsvélina, en gáfust upp á verkinu. Þegar Dupuis-forlagið bauð félögunum að skrifa hliðarsögu um persónur úr Svals & Vals-heiminum sáu þeir færi á að dusta rykið af handritinu. Sagan er óvenjuleg miðað við fyrri verk listamannanna, einkum Béka, sem kunnari er af ærslafengnum myndasögum en raunsæislegum verkum.
  • Sterklega er ýjað að því í sögulok að um framhald verði að ræða. Það atriði á sér stað á hóteli, þar sem bregður fyrir rauðhærðum vikapilti sem minnir óneitanlega á Sval.