Charles Everett Koop (14. október, 1916 – 25. febrúar, 2013)[1] var bandarískur barnaskurðlæknir og deildarstjóri. Hann var stjórnandi í Almenna heilbrigðiskerfinu (PHSCC) og starfaði sem þrettándi aðalskurðlæknir Bandaríkjanna í stjórnartíð Ronalds Reagans forseta frá 1982 til 1989. Koop var þekktur fyrir rannsóknir sínar á tóbaksfíkn, alnæmi og þungunarrofi og fyrir stuðning við réttindi fatlaðra barna.[2]

Charles Everett Koop
Fæddur14. október 1916
Dáinn25. febrúar 2013 (96 ára)
ÞjóðerniBandarískur
StörfÞrettándi aðalskurðlæknir Bandaríkjanna
FlokkurRepúblíkani

Starfsferill

breyta

Frá 1946 til 1981 starfaði Koop sem skurðlæknir við Barnaspítala Fíladelfíu (CHOP). Koop stofnaði fyrstu barnagjörgæsludeild Bandaríkjanna þar árið 1956. Koop hannaði nýjar byltingakenndar aðferðir sem eru almennt notaðar í aðgerðum á ungbörnum í dag.[3]

Koop var tilnefndur aðalskurðlæknir Bandaríkjanna af Reagan árið 1981. Tilnefning hans var staðfest af öldungadeild Bandaríkjaþings 16. nóvember 1981. Hann tók við embættinu 21. janúar 1982.[4]

Þungunarrof

breyta

Í kjölfar dómúrskurðsins Roe gegn Wade (1973) varð C. Everett Kropp áberandi maður í evangelísku hreyfingunni sem barðist gegn fjölgun þungunarrofa. Margir telja að starf hans sem skurðlæknir, þar sem hann bjargaði lífi fjölda ungbarna, hafi ýtt undir andstöðu hans gegn þungunarrofi.[5] Samkvæmt Læknastofnun Bandaríkjanna, sagði Koop einu sinni:


"Áhyggjur mínar af þeim sem eru ófæddir truflar nætursvefn minn, en á daginn snúast áhyggjur mínar um þá sem eru nýfæddir. Hvernig get ég samþykkt tortímingu þeirra ófæddu eftir að hafa bjargað ófullburða nýbara og séð hamingjuna sem hann veitir fjölskyldu sinni?“[6]


Koop óttaðist að ef þungunarrof væru leyfð undir flestum kringumstæðum þá myndi það skapa  siðferðilegan grundvöll fyrir líknarmorð á öryrkjum og öldruðum. Árið 1975 stofnuðu Koop og Harold O. J. Brown, evangelískur guðfræðingur, Aðgerðarráð kristinna manna sem voru fyrstu stóru evangelísku hagsmunasamtökin á Capitol Hill. Aðgerðarráð kristinna manna hjálpaði mörgum stjórnmálamönnum, sem voru gegn þungunarrofi, að ná kjöri. Árið 1976 skrifaði Koop bókina „The Right to Live, The Right to Die“ og ásamt guðfræðingnum Francis Shaeffer bjó hann til margmiðlunarherferðina, sem bar titilinn „Whatever Happened to the Human Race?“,. Í margmiðlunarherferðinni voru notaðar fimm kvikmyndir ásamt fyrirlestri.[7]

Kvikmyndir Francis Schaeffers og fyrirlestur Koops vöktu athygli margra evangelískra manna á stöðnun vestrænnar menningar og málefnum eins og þungunarrofi, efnishyggju, veraldarhyggju, kennslu í ríkisreknum skólum, ofríki, orkumálefnum og fleiru.[7]

Kooper skýrslan

breyta

Þegar Koop var tilnefndur aðalskurðlæknir árið 1981 voru margir frjálslyndir stjórnmálamenn og kvenréttindahópar á móti tilnefningunni. Það var vegna þess að þeir höfðu miklar áhyggjur af íhaldsömu skoðununum sem Koop hafði áður tjáð sig um, en þó sérstaklega varðandi þungunarrof. Það var bent á að þótt hann væri reyndur skurðlæknir þá hafði hann enga reynslu af opinberum heilbrigðismálum. Því grunaði menn að tilnefning hans væri pólitísk en ekki hæfnismiðuð.[6]

Koop taldi hins vegar að þungunarrof félli ekki undir umsjón aðalskurðlæknis. Honum fannst þungunarrof vera siðferðilegt mál sem væri aðeins hægt að leysa með siðferðilegri umræðu. Þetta ætti ekki að vera opinbert málefni ríkisins sem væri hægt að leysa með vísindalegum rannsóknum. Undir lok annars kjörtímabils Reagans fékk forsetinn Koop til að taka þátt í umræðunni um þungunarrof. Hann gerði það með því að skipa Koop að rannsaka og skrifa skýrslu um hugsanleg andlega skaðleg áhrif sem þungunarrof gæti haft á konur. Koop fól George Walter aðstoðarmanni sínum það verkefni að rannsaka málið. Walter fór yfir rannsóknir sem höfðu komið frá Miðstöð sjúkdómavarna (CDC), og hafði samráð við starfsmenn Alan Guttmacher stofnunarinnar. Walter skrifaði drög að skýrslu um niðurstöður sínar og sendi Koop. Eftir að Koop fór yfir skýrsluna komst hann að þeirri niðurstöðu að það væri ósannað að hægt væri að rekja augljós skaðleg áhrif á konur sem færu í þungunarrof. Niðurstaða skýrslunnar kom bæði íhaldsmönnum og frjálslyndum á óvart.[8][9]

Alnæmi

breyta

Stærsta málið sem Koop þurfti að glíma við þegar hann starfaði sem aðalskurðlæknir var kynsjúkdómar sem farsótt. Alnæmi hafði ekki verið greint þegar Koop tók við embætti. Í byrjun farsóttarinnar tilkynnti CDC fimm greinda samkynhneigða karla í Los Angeles sem voru að deyja úr lungnabólgu. Þessi kynsjúkdómur veikti ónæmiskerfið hjá þeim sem smituðust. Það þýddi að þeir sem smituðust voru í meiri hættu við að deyja úr öðrum sjúkdómum sem hefðu annars ekki verið banvænir. Mánuði eftir að CDC tilkynnti greiningu á þessum fimm mönnum þá tilkynnti stofnunin um 26 sjúklinga sem voru HIV greindir, og voru að deyja úr sjaldgæfu húðkrabbameini. Á fjörutíu ára ferli sínum sem læknir hafði Koop aðeins séð tvö tilfelli af þessari tegund krabbameins. Hann vissi þar að leiðandi samstundis að þetta yrði alvarlegt lýðheilsuvandamál. Á næstu árum var HIV veiran greind bæði í Frakklandi og Bandaríkjunum. Án þess að hafa lækningu eða bóluefni stungu margir upp á að eina leiðin til þess að stöðva útbreiðsluna væri að setja alla smitaða í sóttkví. Koop var ósammála. Hann taldi að sóttkví væri óþörf frá faraldsfræðilegu sjónarmiði og væri brot á réttindum einstaklinga sem væru smitaðir. Hann taldi að besta leiðin til að koma í veg fyrir útbreiðsluna var að upplýsa almenning um hvernig veiran dreifði sér og taka mörg sýni. Reagan-stjórnin greip hins vegar ekki til aðgerða í nokkur ár. Koop skrifaði síðar að ríkisstjórnin hefði brugðist of seint við veirunni og hefði látið pólitíska andúð á samkynhneigðum koma í veg fyrir aðgerðir.

Alnæmi skýrslan

breyta

Koop gætti þess að alnæmisskýrslan væri ekki samin undir pólitískum þrýstingi. Hann skrifaði skýrsluna að mestu leyti sjálfur með fáu starfsfólki sér til aðstoðar. Þessi 36 blaðsíðna skýrsla útskýrði alnæmi á einföldu máli sem allir gátu skilið. Í henni kom fram hvernig veiran dreifði sér, hvernig hún dreifði sér ekki og hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að smitast af henni. Skýrslan ráðlagði smokkanotkun og smokkfræðsluherferð. Það ætti að veita öllum nemendum í þriðja bekk og eldri kynfræðslu. Sumir íhaldsmenn voru ósáttir við skýrsluna því að í henni var mælt með kynfræðslu og vildu að Koop yrði sagt upp. Árið 1987 fór Koop til Hollywood þar sem hann hitti rithöfunda og framleiðendur sjónvarpsefnis til að fá þá til að semja þætti um HIV og alnæmi til að upplýsa almenning og vara við hættum af kynsjúkdómum. Koop hvatti einnig rithöfunda til að sýna samúð við sjúklinga sem höfðu alnæmi og gera fólk ekki hrætt við þá. Árið eftir, stytti Koop skýrslu sína og birti hana almenningi. Þessi útgáfa skýrslunnar hét „What Every American Needs to Know About AIDS“ og henni var dreift til 107 milljóna heimila í Bandaríkjunum. Það var stærsta póstsendingin í sögu Bandaríkjanna og var í fyrsta skiptið sem alríkisstjórnin reyndi að upplýsa almenning um kynlíf. Skýrsla Koop lagði grunninn að almennri kynfræðslu í Bandaríkjunum. Kynfræðsla stóð frammi fyrir niðurskurði á áttunda áratugnum en Koop kom í veg fyrir það.[3]

Tópak

breyta

Koop hélt því fram í skýrslu sinni frá 1988 að nikótín væri ávanabindandi efni sem væri svipað og heróín eða kókaín. Skýrsla Koop kom mörgum á óvart, sérstaklega þeim sem bjuggust við að hann myndi viðhalda óbreyttu áliti sérfræðinga á tóbaki. Koop skoraði á Bandaríkin að vera reyklaus fyrir árið 2000. Undir forystu hans samþykkti bandaríska þingið árið 1984 lög um ný viðvörunarmerki á öllum sígarettupökkum. Þau merki eru óbreytt í dag. Koop gaf út átta skýrslur um afleiðingar af notkun tóbaks á heilsu manna, þar á meðal um heilsufarslegar afleiðingar óbeinna reykinga. Í embættistíð Koops lækkaði hlutfall reykinga í Bandaríkjunum verulega, úr 38% í 27%.[10]

Dauði og arfleifð

breyta

Koop dó 25. febrúar 2013, 96 ára gamall, á heimili sínu í Hanover, New Hampshire. Samkvæmt aðstoðarmanni hans hafði hann verið veikur í nokkra mánuði og hafði orðið fyrir nýrnabilun. Koop hafði mikil áhrif á lýðheilsu og menntun. Hann er vel þekktur fyrir afstöðu sína til þungunarrofs en áhriffamesta framlag hans til bandarískrar menningar var skýrsla hans um alnæmi sem lagði grunninn að kynfræðslu um öll Bandaríkin.[1]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „C. Everett Koop, Surgeon General Who Took on Tobacco, Dies at 96“. Bloomberg.com (enska). 26. febrúar 2013. Sótt 3. desember 2020.
  2. „The Washington Post: Breaking News, World, US, DC News and Analysis“. Washington Post (enska). Sótt 3. desember 2020.
  3. 3,0 3,1 „Biographical Overview“. C. Everett Koop - Profiles in Science (enska). Sótt 3. desember 2020.
  4. „The Pittsburgh Press - Google News Archive Search“. news.google.com. Sótt 3. desember 2020.
  5. Specter, Michael. „Postscript: C. Everett Koop, 1916-2013“. The New Yorker (bandarísk enska). Sótt 3. desember 2020.
  6. 6,0 6,1 „C. Everett Koop: The Surgeon General Who Put Science Before Personal Ideology“. Rewire News Group (enska). Sótt 3. desember 2020.
  7. 7,0 7,1 July 12, Anthony Bradley •; 2016 (12. júlí 2016). „How Evangelicals Became GOP Culture War Soldiers“. Acton Institute PowerBlog (bandarísk enska). Sótt 3. desember 2020.
  8. „C. Everett Koop, a conservative who told the truth“. MSNBC.com (enska). Sótt 3. desember 2020.
  9. Tolchin, Martin; Times, Special To the New York (11. janúar 1989). „Koop's Stand on Abortion's Effect Surprises Friends and Foes Alike (Published 1989)“. The New York Times (bandarísk enska). ISSN 0362-4331. Sótt 3. desember 2020.
  10. „Reports of the Surgeon General“. Profiles in Science (enska). Sótt 3. desember 2020.