Borðspil er leikur þar sem þátttakendur nota ýmsa smáhluti, eins og peð, spil og teninga, til að framfylgja ákveðnum reglum á sérstöku spilaborði. Í flestum borðspilum vinna þátttakendur leiksins, spilararnir, að því að vinna aðra spilara og sigur er þá mældur í fjölda stiga, staðsetningar á borði, spilapeningum eða álíka. Í nokkrum borðspilum vinna spilarar saman gegn sjálfu spilinu og reyna að ná sameiginlegu markmiði áður en slembni í spilinu kemur í veg fyrir það.

Borðspil geta verið byggð á slembni, kænsku, samningum eða blöndu af öllum leikþáttum. Borðspil koma í mörgum mismunandi tegundum. Sum borðspil hafa ríkt þema og sögu eins og Catan landnemarnir þar sem spilarar nema land á eyjunni Catan og byggja upp borgi og bæi. Önnur spil hafa ekkert þema eins og hornskák þar sem spilarar færa dökka og ljósa (oftast svarta og hvíta) leikmenn á taflborði með 64 ferköntuðum reitum. Borðspil geta verið spiluð af mismörgum spilurum, allt frá einum spilara til stórs hóps með tugum spilara og eru misflókin. Borðspil eins og mylla, þar sem leikmenn setja táknin X og O á borð sem skipt er upp í níu hólf og reyna að ná þremur táknum í röð, teljast einföld miðað við spil eins og stríðsspilið World in Flames. Enn önnur borðspil, eins og hafa einfaldar reglur sem bjóða upp á mjög flóknar aðstæður.

Saga borðspila

breyta

Fyrsta borðspilið er almennt talið vera Senet sem fannst meðal annars í gröfum fyrstu konungsættarinnar í Egyptalandi. Út frá aldri grafanna er það vitað að Senet var spilað í kringum 3100 fyrir Krist. Fyrsta borðspilið í fullri mynd er talið vera Konunglegi leikurinn af Ur sem var búinn til í kringum 2500 fyrir Krist. Bæði Senet og Konunglegi leikurinn af úr teljast vera kapphlaupsleikir og forverar Kotru en elsta útgáfan af Kotru (ólík þeirri sem spiluð er í dag) er talin vera frá árinu 3000 fyrir Krist.

Vegna Senet og Konunglega leiksins af Ur er því talið að borðspilið hafi verið fundið upp í Mið-Austurlöndunum. Í kringum 500-400 fyrir Krist fer að bera á leikjum í Asíu. Um 500 fyrir Krist er talið að Pachisi, sem líkist Lúdó, hafi verið fundið upp í Indlandi og árið 400 fyrir Krist er taflið fyrst nefnt en það var í kínverska ritinu Zuo Zhuan. Á Norðurlöndunum ryður tafl sér rúms í kringum 400 eftir Krist.

Árið 1930 tekur spilið Monopoly á sig endanlega mynd en borðspilið var upphaflega fundið upp af Elizabeth J. Magie Phillips árið 1903 (undir nafninu The Landlord's Game) til að sýna hættur einokunar. Fyrstu nútímastríðsspilin koma fram undir lok 6. áratugar 20. aldar með spilunum Risk sem var gefið út 1957 og Diplomacy sem kom fyrst út árið 1959.

Upp úr árinu 1980 mótaðist þróunarstefna í borðspilum sem kennd er við Þýskaland eða Evrópu þar sem áhersla er lögð á einfaldar reglur, ríkt þema, stuttan eða miðlungslangan spilatíma, óbeint samspil spilara og þátttöku allra spilara á meðan borðspilinu stendur (enginn dettur út). Árið 1995 komu Catan landnemarnir út fyrst sem markaði upphaf innrásar þýsku borðspilana í Bandaríkjunum og um allan heim. Catan landnemarnir, sem hannað var af Klaus Teubner, markaði einnig upphafið að svokölluðum hönnuðaleikjum. Hönnuðaleikur telst vera leikur þar sem hönnuður leiksins er tekin fram á borðspilaumbúðunum sjálfum. Í dag fylgjast borðspilaáhugamenn vel með útgáfu borðspila eftir eftirlætishönnuðina sína og margir hönnuðir, svo sem Allan R. Moon, Reiner Knizia og Uwe Rosenberg, njóta mikillar virðingar meðal margra spilara.

Flokkun borðspila

breyta
 
Hugræna borðspilið Gipf

Borðspil eru vanalega flokkuð eftir gerð spilsins en sama borðspilið getur samt sem áður tilheyrt nokkrum flokkum. Á vefsíðunni Boardgamegeek, sem er gríðarlega vinsælt vefsvæði fyrir áhugafólk um borðspil, er notast við átta flokka:

  • Hugræn eða abstrakt borðspil
  • Breytanleg borðspil
  • Barnaspil
  • Fjölskylduspil
  • Fjöldaspil eða partýspil
  • Kænskuspil
  • Þemarík spil
  • Stríðsspil
 
Evrópska borðspilið Power Grid

Meðal borðspilara eru borðspil þó oft flokkuð enn ítarlegar eftir því hvernig spilin eru byggð upp:

  • Hreyfingarspil
  • Hugræn borðspil
  • Kapphlaupsspil
  • Kortaspil
  • Lestarspil
  • Orðaspil
  • Partýspil
  • Spurningaspil
  • Stríðsspil
  • Þýsk borðspil eða evrópsk spil (þemarík borðspil)

Dæmi um borðspil

breyta

Innan hvers borðspilaflokks er fjöldi borðspila sem þrátt fyrir að tilheyra sama flokki eru mjög mismunandi. Vefsvæði Boardgamegeek heldur utan um gagnagrunn með hátt í 50 þúsund borðspilum. Í gagnagrunni Boardgamegeek er spilum raðað í röð eftir einkunnagjöf samfélags vefsvæðisins. Efstu þrjú spilin á listanum eru:

 
Villa Paletti
 
Bohnanza
 
Risk
 
Catan landnemarnir
 
North American board games
  1. Twilight Struggle
  2. Puerto Rico
  3. Agricola

Twilight Struggle er dæmi um stríðsspil en Puerto Rico og Agricola eru dæmi um evrópsk spil. Dæmi um önnur vel þekkt borðspil má raða eftir flokkum:

Borðspilamenning á Íslandi

breyta

Á Íslandi eru starfræktar tvær borðspilaverslanir, Spilavinir og Nexus. Auk þeirra selja allar helstu verslanir á Íslandi úrval valinna og þekktra borðspila með íslenskum reglum. Á Íslandi starfa einnig nokkur óformleg og formleg borðspilafélög sem halda reglulega borðspilakvöld og borðspilamót fyrir meðlimi og gesti.

Verslanir með borðspil

breyta
  • Spilavinir er verslun sem var stofnuð árið 2007 og sérhæfir sig í spilum og púsluspilum fyrir fjölskyldur og vinahópa. Spilavinir hafa frá upphafi ýtt gagngert undir aukna borðspilamenningu á Íslandi með því að halda borðspilakvöld í versluninni og á öðrum stöðum, svo sem skólum og félagsmiðstöðvum. Árið 2020 opnuðu Spilavinir kaffihús inni í versluninni, Spilakaffi, auk þess að opna fyrir aðgang að gríðarlega stóru spilasafni þeirra í kjallara verslunarinnar. Þar er spilasalur og leiksvæði fyrir ung börn. Spilavinir halda ýmsa viðburði í versluninni eins og BarSvar (e. pub quiz) og ýmis spilamót, sbr. Íslandsmeistaramót í Carcassonne og Dominion.
  • Nexus sérhæfir sig aftur á móti í hverskyns sérvörum fyrir áhugamenn, svo sem borðspil, hlutverkaleiki, myndasögur, kvikmyndir, vísindaskáldsögum og fleira. Versluninni er skipt upp í tvo hluta. Annar hluti verslunarinnar selur myndasögur, skáldsögur og kvikmyndir. Hinn hluti verslunarinnar selur hverskyns spil og þar á meðal borðspil. Nexus rekur einnig spilasal ætluðum ýmsum spilahópum sem Hugleikjafélag Reykjavíkur hefur umsjón með.

Borðspilafélög

breyta
  • Hugleikjafélag Reykjavíkur var stofnað 21. nóvember 2010 með það að markmiði að auka þátttöku í borðspilum, herkænskuspilum, safnkortaspilum, spunaspilum og tölvuleikjum, sem ganga undir nafninu hugleikir. Félagið rekur félagsheimili í húsnæði á vegum verslunarinnar Nexus að Hverfisgötu 103. Hvert áhugasvið innan Hugleikjafélags Reykjavíkur er úthlutaður einn dagur í viku þar sem félagsmenn geta hist og stundað áhugamálið.
  • Leikjavík er verkefni styrkt af Reykjavíkurborg um rekstur á stað í Reykjavík þar sem hver sem er getur litið inn, hitt fólk og spilað borðspil að kostnaðarlausu. Leikjavík var opnuð 12. nóvember 2010 í húsnæði Múltí Kúltí að Barónsstíg 3. Verkefnið er einnig stutt af verslununum Spilavinir og Nexus.
  • Sfinxinn er borðspilafélag sem stofnað var í febrúar 2010 í Reykjavík. Félagið hefur ekki fasta staðsetningu þar sem félagsmenn hittast og spila borðspil en spilaði í spilasal verslunarinnar Nexus á mánudagskvöldum allt til stofnunar Hugleikjafélags Reykjavíkur í lok nóvember 2010. Félagsmenn sjálfir koma með eigin spil á spilakvöldin en flest spilin flokkast sem evrópsk borðspil. Sfinxinn hefur haldið lítil borðspilamót, meðal annars í kortaspilinu Dominion.

Ytri tenglar

breyta