Billie Holiday
Billie Holiday (fædd Eleanora Fagan; 7. apríl, 1915 – 17. júlí, 1959) var bandarísk djass- og swing-söngkona sem hafði mikil áhrif á djasstónlist á 20. öld. Vinur hennar og samstarfsfélagi, saxófónleikarinn Lester Young hóf að kalla hana Lady Day sem festist við hana. Hún skapaði sérstakan söngstíl með óhefðbundnum frösum og takti og varð þekkt fyrir einstaka raddbeitingu og spunahæfileika.[1]
Holiday átti erfiða æsku og hóf feril sinn sem næturklúbbasöngkona í Harlem í New York-borg. Þar uppgötvaði framleiðandinn John Hammond hana og hún gerði útgáfusamning við Brunswick Records árið 1935. Samstarf hennar við Teddy Wilson gat af sér smellinn „What a Little Moonlight Can Do“ sem varð brátt sígilt djasslag. Á 4. og 5. áratug 20. aldar gaf hún út fjölda metsöluplatna hjá Columbia Records og Decca Records meðal annarra. Seint á 5. áratugnum lenti hún ítrekað í kasti við lögin vegna eiturlyfjafíknar. Hún sat í fangelsi um stutt skeið en sneri aftur með metsölutónleika í Carnegie Hall.
Síðustu ár hennar kom hún fram á fjölda tónleika sem seldust upp, en vegna breytinga á rödd hennar fengu plötur hennar blendin viðbrögð, þótt þær seldust vel. Síðasta breiðskífa hennar, Lady in Satin, kom út árið 1958. Holiday lést úr skorpulifur aðeins 44 ára að aldri.
Billie Holiday hlaut fjögur Grammýverðlaun eftir andlát sitt fyrir bestu sögulegu hljómplötuna. Hún hefur verið skráð í Frægðarhöll Grammýverðlaunanna og Frægðarhöll ryþmablússins. Auk þess var hún líka skráð í Frægðarhöll rokksins en ekki sem rokksöngkona, heldur djasssöngkona. Á vef þeirra stendur að Billie Holiday hafi breytt djassinum til frambúðar.[2] Ævi hennar hefur verið gerð skil í nokkrum kvikmyndum. Nýjasta myndin er The United States vs. Billie Holiday frá 2021.
Tilvísanir
breyta- ↑ Ostendorf, Berndt (1. janúar 1993). „Review of Lady Day: The Many Faces of Billie Holiday“. Popular Music. 12 (2): 201–202. doi:10.1017/s0261143000005602. JSTOR 931303.
- ↑ „Billie Holiday | Rock & Roll Hall of Fame“. Rockhall.com. Sótt 28. júlí 2021.