Berklar

(Endurbeint frá Berklaveiki)

Berklar (áður kallaðir tæring) er lífshættulegur sjúkdómur sem smitast á milli manna í gegnum andrúmsloftið. Þeir hafa valdið fjölda dauðsfalla um allan heim. Algengasti orsakavaldurinn eru bakteríur af tegundinni Mycobacterium tuberculosis. Fyrir hálfri öld síðan komu fram fyrstu lyfin við sjúkdómnum en áður en lyfin komu til sögunnar notaðist fólk við aðrar aðferðir til að lækna berklana. Berklafaraldurinn stóð í hámarki á Íslandi um 1900 en þá var hann farinn að minnka í öðrum nágrannalöndum.

Röntgenmynd af lunga berklasjúklings.

Til eru tvær tegundir af berklasýklum sem verka á menn og eru álíka skæðir. Það eru hinn venjulegi berklasýkill (M. tuberculosis) og svo önnur tegund (M. bovis) sem einkum leggst á nautgripi en menn geta einnig smitast af (og stundum líka af fuglaberklum (M. avium)). Auk þeirra eru til undirtegundir, sem eru á ýmsan hátt afbrigðilegir, bæði í ræktun og hegðun í tilraunadýrum. Geta sumir þeirra valdið sýkingu hjá mönnum og dýrum en sýkingin er yfirleitt vægari og eru þessir sýklar því engan veginn eins skæðir fyrir menn. Þessar afbrigðulegu undirtegundir hafa færst í aukana á síðari árum og er sú kenning til að sumir þeirra að minnsta kosti hafi komið fram eftir að lyf fundust við berklaveiki.[1]

Almennt um berkla

breyta

Berklar er lífshættulegur smitsjúkdómur sem smitast á milli manna um öndunarfæri. Meinvaldurinn er baktería sem kemst inn í líkamann við öndun, hún berst svo með blóðrás úr öndunarfærunum um líkamann. Berklasýkilinn hreiðrar svo um sig í nýrum, beinum eða miðtaugakerfi. Algengast er að þeir valdi sjúkdómi í lungunum, þar eru vaxtarskilyrðin góð, aðallega í lungnatoppnum.[2]

Berklar smitast aðallega með hósta, þá dreifast berklasýklarnir um loftið og því erfitt að forðast smit. Ef berklasjúklingur hóstar á markaðstorgi getur heilbrigður einstaklingur samt smitast þó liðið hafa þrjár klukkustundir á milli. Berklarnir eru samt ekki mjög smitandi til dæmis miðað við flensur, smithættan er meiri eftir því sem samskipti við sjúklinginn eru nánari.[3]

Heilbrigt líferni, hreinlæti og hreysti er mjög mikilvægt fyrir einstaklinga að búa yfir til að verjast bakteríunni. Þeir verða sjaldan varir við nokkuð þó þeir hafi andað að sér berklabakteríunni. Auk þess smitar þetta fólk ekki út frá sér en til þess að geta smitað aðra þarf maður að vera orðinn sjúkur af berklum. Í kringum 1800 bjó fólk þröngt, í lélegum húsum og við óþrifnað sem varð til þess að berklaveikin breiddist hratt út.[4]

Lækningar við berklum

breyta

Áður en lyfin komu til sögunnar var öðrum aðferðum beitt til að reyna að sigrast á sjúkdómnum. Ein aðferðin, blásning, virkaði þannig að lofti var blásið inn í brjósthol sjúklings til þess að fá lungað til að falla saman. Þeir sjúklingar sem þessi aðferð var notuð á, voru með berklaígerð og berklaholur á lunga. Þessi aðferð var árangursrík og jukust batahorfur sjúklinga um mun. Brennsla er önnur aðferð sem var notuð. Samvextirnir voru brenndir með rafmagnsbrennslu. Þegar engin önnur aðferð virkaði og ekki var hægt að nota blásningu, sem var yfirleitt fyrsti kostur, var höggning notuð, oftast vegna þess að sjúklingar höfðu þá fengið brjósthimnubólgu. Þá voru efstu rifbeinin fjarðlægð úr sjúklingnum, stundum sex til átta rifbein, og féll þá brjóstkassinn. Tilgangurinn með höggningu var sá sami og hinna aðferðanna, þ.e. að berklaholan lokaðist.[5]

Algengustu lyfin við berklum eru isoniazid og rifampin. Þegar stofnar af berklabakteríunni eru ónæmir fyrir þessum lyfjum, kallast þeir fjölónæmir. Ef um slíkt smit er að ræða, kostar það að minnsta kosti 100 sinnum meira að lækna það heldur en ef hægt væri að nota hefðbundin lyf. Venjuleg meðferð tekur um sex mánuði og kostar um 2000 kr. en það kostar meira en milljón að lækna einstakling sem er smitaður af fjölónæmri berklabakteríu og tekur það um tvö ár. Engin lyf voru til við meðhöndlun berkla, fyrr en fyrir um það bil hálfri öld síðan. Þetta ástand, að lyf vanti, er að verða til á ný með tilkomu fjölónæmra berklabaktería. Þessir stofnar hafa myndast þegar sjúklingar með berkla hafa byrjað að taka venjuleg lyf en ekki klárað lyfjakúrinn. Þá fer af stað baktería sem er ónæm fyrir viðkomandi lyfi.[6]

Þýski læknirinn Robert Koch uppgötvaði berklasýkilinn fyrstur manna árið 1882. Hann sýndi fram á að hinar ýmsu myndir berkla eins og afmyndanir beina, húð-, kirtla- og lungnaberklar, var allt af völdum sama sýkilsins. Selman A. Waksman prófessor uppgötvaði fyrsta lyfið við berklum sem hann kallaði „streptómycín“. Hann hafði mikinn áhuga á að rannsaka sveppi og jarðvegsræktanir. Hann hafði fylgst með mismunandi örverum í jarðveginum, og með rannsóknum sínum komst hann að því hve sjaldan hann fann sjúkdómsframkallandi örverur í jarðveginum. Hann hugsaði að þær þrifust ekki þar vegna annara örvera í jarðveginum sem tortímdu þeim. Þetta leiddi til þess að fólk fór að éta jarðveg í trú um það að það væri gott berklalyf.[7]

Lækningatilraunir voru gerðar með streptómycín en það var ung dóttir samverkamanns Waksmans, Eva. Hún var með heilahimnabólgu sem stafaði af berklasýkli. Læknar töldu að sjúkdómurinn væri ekki læknanlegur svo þeir prófuðu að gefa Evu nýja lyfið sem var enn á tilraunastigi. Henni var gefin innstunga af streptómycíni í mænugöng daglega í fjóra mánuði. Þeir tóku strax eftir breytingum á henni og leit hún út fyrir að vera á batavegi, svo smám saman hurfu einkenni sjúkdómsins þar til að lokum var greinilegt að fyrsta tilfelli af heilahimnabólgu í sögunni hafði verið læknað með fúkalyfi.[8]

Þetta leiddi til þess að Waksman uppgötvaði sitt fyrsta fúkalyf, sem hann kallaði actínomycín, árið 1940. Lyfið var eitrað svo hægt væri að nota það gegn sjúkdómnum í mönnum en hann taldi að síðar gæti hann fundið upp fúkalyf sem yrði minna eitrað. Árið 1952 vann Waksman svo Nóbelsverðlaunin fyrir afrek sín.[9]

Berklar á Íslandi

breyta

Berklar hafa að öllum líkindum komið til Íslands á landnámsöld en það eru sannfærandi vísbendingar um að það varð landlæg á mismunandi svæðum fljótlega eftir landnámstímann og um miðjan aldur.[10] Á meðan berklar jukust hér á landi í upphafi 20. aldar, voru þeir farnir að minnka annars staðar.[11]

Dánarhlutfall berklasjúklinga á Íslandi var eitt það hæsta í Evrópu. Berklar voru algengasta dánarorsök Reykvíkinga á árunum 1911 – 1925, þeir ollu um fimmtungi allra dauðsfalla á landsvísu. Guðmundur Björnsson, þáverandi héraðslæknir í Reykjavík, átti frumkvæðið að baráttu gegn berklaveiki með því að þýða og gefa út danskan bækling „Um berklasótt“ árið 1898. Þetta var í fyrsta sinn sem leitast var við að fræða almenning á Íslandi um útbreiðsluhætti berkla og varnir gegn sjúkdóminum. Áður hafði almenningur verið með öllu ókunnugt um smithættu og leiðir sjúkdómsins og heilu fjölskyldurnar sýktust og létust.[12]

Guðmundur safnaði saman liði til að reisa fullkomið heilsuhæli fyrir berklasjúklinga á Íslandi. 13. nóvember 1906 var stofnfundur svokallaðs Heilsuhælisfélags og innan tveggja ára frá félagsstofnun hófst frekari undirbúningur verkefnisins og var ákveðið að byggja hælið á Vífilsstöðum. Sumarið 1909 var hafist handa og ákváðu menn að hugsa stórt, hælið átti að verða stærsta sjúkrastofnun Íslands. Það tók aðeins 18 mánuði að byggja húsið og 5. september 1910 tók hælið til starfa með rúm fyrir 80 sjúklinga. Húsið var fullbúið öllum tækjum og húsgögnum. Síðar var svo hælið stækkað og sjúkrarúmum fjölgað, þegar mest var voru um 200 sjúklingar á hælinu.[13]

Fyrstu árin eftir að hælið var stofnað þekktust engin lyf við berklum. Meðferð sjúklingana voru þá útiloft, kjarngóð fæða og hvíld með hæfilegri hreyfingu. Berklasjúk börn fengu ekki að ganga í skóla með heilbrigðum börnum vegna smithættu, þá var rekin sérstök barnadeild við Hælið sem og skóli. Árið 1952 kom öflugasta lyfið í baráttunni, Isonazid. Með réttri blöndu lyfjanna var fyrst hægt að lækna alla berkla.[14]

Þegar árangursríkar lyfjameðferðir og bættur aðbúnaður og húsakynni almennings kom til, leiddi það smám saman til þess að ekki var lengur þörf á berklasjúkrahúsi. Þá var Heilsuhælinu fundið nýtt hlutverk og fékk nýtt nafn — Vífilsstaðaspítali. Í dag er Ísland í hópi landa með lægstu tíðni berklasmits.[15]

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta