Beitiland kallast girt eða ógirt svæði þar sem búfé er beitt. Beitilönd geta ýmist verið heimalönd í einkaeigu (heimahagar), heimalönd í sameign eða afréttir. Beitiland er gjarnan nýtt yfir sumartímann en það er ódýrasti fóðrunarkosturinn.

Holstein-kýr á beit í Sviss
Sauðfé á beit í Frakklandi

Fyrr á öldum og allt fram á miðja 20. öld byggðist sauðfjárbúskapur á Íslandi á hagabeit allt árið því ekki voru nema mjög takmarkaðir möguleikar til heyöflunar og hey þyrfti að nota fyrir nautgripi. Með framræslu lands og nýrri tækni jókst túnrækt og vetrarbeit lagðist af. Afréttir á Íslandi liggja yfirleitt 400 m yfir sjávarmáli eða hærra. Sauðfé gengur á afréttum að sumarlagi og er vöxtur lamba fram eftir sumri hraðari á hálendisbeit en á láglendi. Stór hluti af hálendi Íslands er ekki hæft til beitar vegna jarðvegsrofs.[1]

Beitarskipulag breyta

Til að hámarka afkomu beitarsvæða en ganga þó ekki á landgæði þarf að skipuleggja beitina og takmarka hana sumsstaðar. Þetta er gert með því að skipuleggja hvar, hvenær og hversu mörg beitardýr ganga á beitinni á hverjum tíma. Dæmi um slíkt skipulag er t.d. hólfabeit, randbeit, skiptibeit eða samfelld beit.

Samfelld beit breyta

Á stórum svæðum er fjölbreytni í gróðurlendum og tegudum mikil og því geta sum svæði verið nauðbitin á meðan önnur eru ekki snert. Þetta á sérstaklega við þar sem samfelld beit er viðhöfð en þá eru beitardýr látin valsa um stór svæði jafnvel árið um kring. Samfelld beit felur ekki í sér neina beitarstýringu.

Með samfelldri beit er hægt að viðhafa blandaða beit, þ.e. blanda búfjártegundum en ólíkar tegundir nýta ólíkar plöntur og þannig fæst betri nýting af beitilandinu.

Hólfabeit eða skiptibeit breyta

Með hólfabeit er stórt beitarsvæði hólfað niður og hólfin beitt og friðuð til skiptist. Þetta fyrirkomulag er helst notað þar sem landrými er af skornum skammti en landið þarf að gefa visst mikið af sér til að slíkt fyrirkomulag borgi sig (girðingakostnaður). Skiptibeit felst í því að ein búfjártegund er látin bíta landið og það næst friðað í einhvern tíma áður en næsta búfjártegund nýtir endurvöxtinn. Með þessu er t.d. hægt að láta hross „hreinsa“ mýrar svo þær verði lystugari fyrir sauðfé eða nautgripi.

Randabeit breyta

Randabeit fer þannig fram að skepnunum er skammtað land með rafmagnsstreng og þannig lágmarkast það sem fer til spillis út af traðki og búfjáráburði. Þessi aðferð er mikið notuð á kýr og hross en erfiðara með sauðfé og geitur þar sem þær virða slík kerfi síður.

Hraðbeit breyta

Hraðbeit kallast það að þegar hólf eru þungbeitt í stuttan tíma en síðan friðað á meðan önnur hólf eru beitt. Með þessu vinnst að lítið er um traðk og flestar plöntur eru bitnar en á móti geta skepnurnar „lært á kerfið“ og í stað þess að bíta verri beitarplöntur bíða þær eftir að verða fluttar á milli hólfa.

Úthagi breyta

Oftast notað yfir beitlönd fyrir sauðfé. Úthagi skiptist í þrennt: Heimalönd, upprekstarheimalönd og afrétti. Samkvæmt lögum ber að smala úthaga á haustin.[2]

Stór hluti Íslands, eða alls um 53% lands­ins, telst vera úthagi. Þetta eru gróin eða hálf­gróin svæði sem ekki eru brotin til rækt­unar en iðu­lega nýtt til beit­ar. Hlut­fall úthaga sem líka má kalla mólendi er óvenju­lega hátt hér­lend­is. Ann­ars staðar í Evr­ópu er yfir­borðið lands­ins yfir­leitt akur eða skógur en víð­feðm úthaga­svæði eru aftur á móti algeng á þurrka­svæðum jarð­ar. Á Íslandi er ræktað land eins og eyjar í víð­áttu úthag­ans meðan því er öfugt farið víð­ast ann­ars staðar í Evr­ópu.[3]

Tilvísanir breyta

  1. Bjarni P. Maronsson, Sauðfjárbúskapur og nýting beitilanda,2002[óvirkur tengill]
  2. Ólafur R. Dýrmundsson (2023). Sauðfjárbúskapur í Reykjavík. Hið Íslenzka Bókmenntafélag. bls. 292.
  3. Snorri Baldursson (2020). „Úthaginn, kolefnið og loftslagið“. Kjarninn.