Búðahraun

Friðland

Búðahraun er hraunbreiða á milli Staðarsveitar og Breiðuvíkur á sunnanverðu Snæfellsnesi. Hraunið nær austan frá Búðum og í sjó fram í Faxaflóa og nær vestur að Hraunlandarifi. Uppsprettu þess má rekja til Búðakletts (88 m), sem rís fyrir miðju hrauni.

Búðahraun merkt rautt á kortinu.
Búðahraun.
Torfbær í Búðahrauni.

Gígbarma Búðakletts má sjá að austanverðu, en sjálfur gígurinn er opinn til vest-suðvesturs hvaðan leggur sig út Búðahellir, 382 m að lengd, meðfram gígnum. Opnast hellir þessi til norðurs vestan við Búðaklett og hægt er að ganga á Búðaklett og inn í Búðahelli, ef hafðir eru meðferðis ljósgjafar til að lýsa leið. Þótt úfið sé að sjá, er Búðahraun ágætlega vel fallið til gönguferða og frá fornu fari hefur legið þar í gegn gata, Klettsgata, mjó, hlykkjótt og grýtt leið frá Búðum til Hraunlanda sem mikið var farin áður fyrr. Í dag er Hraunlönd eyðibýli í vesturjaðri hraunsins.

Gróðurfar

breyta

Búðahraun er þekkt fyrir fjölbreytt gróðurfar og hafa þar fundist rúmlega 130 tegundir af plöntum. Þar má finna 11 af 16 tegundum íslenskra burkna, sóleyjar og blágresi sem nær allt að 1 m á hæðina. Þá má finna þar fágætari friðaðar jurtir eins og skrautpunt og fjögurra laufa smára. Austurhluti Búðahrauns, frá Búðaósum og upp að Þjóððólfshelli og til sjávar var friðað árið 1977.

Heimildir

breyta
  • Björn Hróarsson. Á ferð um landið, Snæfellsnes. Mál og Menning. ISBN 9979-3-0853-2.
  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, A-G. Örn og Örlygur.
   Þessi landafræðigrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.