Auglýsingastofa Reykjavíkur
Auglýsingastofa Reykjavíkur hf. var í hópi fyrstu fyrirtækja Íslands til að vinna vefsíður fyrir fyrirtæki og opinbera aðila. Fyrstu þreifingar fyrirtækisins í heimasíðugerð byrjuðu árið 1995 og voru frá upphafi í nánu samstarfi við opinbera, eða hálf-opinbera aðila á borð við Ferðamálaráð og Samtök iðnaðarins.
Megin áherslan var á smíði og rekstur sérhæfðra kynningarvefsvæða (vefgátta) sem báru nöfn eins og "Iceland Travel Web" og "North Atlantic Solutions", en þar voru kynnt þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi. Inni á þessum gáttum áttu fjöldamörg fyrirtæki sinn fyrsta vísi að heimasíðum, fyrirtæki á borð við Úrval-Útsýn, Samvinnuferðir-Landsýn, Borgarplast, Marel, o.fl.
Á þessum tíma kostaði leiga á .is-léni vel yfir tíu þúsund krónur á mánuði, og sökum þess hversu ungur og ómótaður vefurinn var sem kynningarmiðill á þessum árum, þá veigruðu jafnvel stærstu fyrirtæki sér við því að fjárfesta í eigin léni.
Auglýsingastofan var alla tíð fremur smá í sniðum, mest átta starfsmenn sumarið 1996, og vefhönnunin og -smíðin var aldrei nema lítill hluti af starfsemi fyrirtækisins.
Haustið 1996 ákváðu þáverandi eigendur auglýsingastofunnar að skipta rekstrinum á milli sín. Kristján hélt áfram rekstri hefðbundinnar auglýsingastofu undir sama nafni, en Hermann flutti með þann hluta rekstursins sem sneri að vefsíðugerðinni út í Sundaborg og stofnaði Íslensku Internetþjónustuna, sem síðar sameinaðist Hugviti.
Auglýsingastofa Reykjavíkur var rekin áfram í sísmækkandi mynd eitthvað fram yfir árið 2000 og fékkst aldrei aftur að neinu marki við vefsíðugerð.