Auðnir í Svarfaðardal
Auðnir var bær í Svarfaðardal milli bæjanna Hóls og Klaufabrekkna. Upp af bænum er hár fjallshnjúkur sem nefnist Auðnasýling. Bæjarins er fyrst getið í Auðunnarmáldaga frá 1318. Þá áttu Urðakirkja mest í jörðinni. Gottskálk biskup grimmi náði henni svo undir Hólastól með brögðum. Biskupsstóllinn átti síðan jörðina til 1802 en þá keypti Jón Ólafsson frá Hæringsstöðum Auðnir. Seinna var jörðin gefin til styrktar ekkjum og munaðarlausum börnum í Svarfaðardalshreppi og var kristfjárjörð allt til 1949 þegar Jón Ágústsson, síðasti bóndi á Auðnum, keypti hana. [1] Bærinn eyddist í snjóflóði 3. apríl 1953, það var á föstudaginn langa. Síðan hefur ekki verið búið á Auðnum.
Snjóflóðið
breytaSnjóflóðið kom hátt úr hlíðum Auðnasýlingar upp af bænum. Fannfergi var mikið og stórhríð um nóttina. Á Auðnum bjuggu eldri hjón, Ágúst Jónsson og Snjólaug Flóventsdóttir og sonur þeirra Jón ásamt unnustu sinni Rannveigu Valdemarsdóttur frá Teigi í Vopnafirði. Flóðið gereyðilagði íbúðarhúsið og útihús öll. Fannfergi og ófærð gerðu björgunaraðgerðir afar erfiðar og símalínur höfðu slitnað í óveðrinu. Björgunarmenn grófu þó fólk og fénað úr fönninni þá um kvöldið og nóttina. Jón og Snjólaug móðir hans náðust lifandi en Ágúst og Rannveig létust í flóðinu. Mest af búfénaðinum fórst.[2] Stór minningarsteinn með áletrun stendur nú á bæjarstæðinu gamla.