Alboranhaf
Alboranhaf er vestasti hluti Miðjarðarhafs, rétt austan við Gíbraltarsund, á milli Íberíuskaga og norðurstrandar Marokkó. Það heitir eftir eyjunni Alborán. Í Alboranhafi rennur saltríkur djúpsjór út í Atlantshaf en yfirborðsstraumar flytja sjó úr Atlantshafi inn í Miðjarðarhaf.
Í Alboranhafi er auðugt lífríki og mikilvæg fiskimið fyrir sardínur og sverðfiska. Þar er stærsti stofn stökkla í vesturhluta Miðjarðarhafs og stærsti stofn hnísa í Miðjarðarhafi. Þar eru líka mikilvægustu búsvæði klumbudraga í Evrópu. Árið 2003 lýsti World Wide Fund for Nature yfir áhyggjum vegna notkunar rekneta við fiskveiðar í Alboranhafi.