Alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar skipa

Alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar skipa eða STCW-samþykktin er alþjóðasamningur sem fjallar um lágmarkshæfnikröfur til skipstjórnarmanna og vakthafandi áhafna um borð í flutningaskipum. Alþjóðasiglingamálastofnunin tók samþykktina upp árið 1978. Hún tók formlega gildi árið 1984. Hún var endurskoðuð að stórum hluta árið 1995. Ísland gerðist aðili að samþykkinni árið 1995.

Samþykktin var fyrsti alþjóðlegi samningurinn sem fjallaði um þjálfun, vottun og vaktstöður sjómanna. Áður voru slíkar kröfur settar fram í lögum einstakra ríkja. Afleiðingin var sú að lágmarkskröfur, staðlar og vottanir voru gerólíkar í mismunandi löndum, þrátt fyrir að starfsemi skipafélaga væri að stórum hluta alþjóðleg.

STCW fjallar ekki um mönnun skipa. Ákvæði um hana er að finna í 14. grein V. kafla Samnings um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS) frá 1974 og ályktun Alþjóðasiglingastofnunarinnar um öryggismönnun (A.890(21)) frá 1999.

Árið 1995 var Alþjóðasamþykkt um viðmiðanir fyrir menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa (STCW-F) tekin upp sem sérstakur alþjóðasamningur um leið og STCW var endurskoðaður. Samkvæmt honum gilda reglur STCW fyrir fiskiskip sem eru yfir 24 metrar að lengd. STCW-F tók formlega gildi árið 2012.

Mikilvægt einkenni samþykktarinnar er að hún gildir um öll skip innan lögsögu aðildarríkis, óháð því hvar það er skráð. Grein X kveður á um að aðildarríki geti haft eftirlit með því hvort sjómenn séu með STCW-vottun um borð í öllum skipum sem eru í höfn ríkisins. Þetta hefur meðal annars leitt til þess hve samningurinn er útbreiddur. Árið 2018 voru 164 ríki aðilar að samningnum, með yfir 99% af kaupskipaflota heimsins í tonnum talið.

Tenglar

breyta
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.