Friðbjarnarhús er safnahús sem stendur í innbænum á Akureyri við Aðalstræti 46. Það var byggt árið 1856 og er friðað. Í húsinu eru tvö söfn: Leikfangasafn frá síðustu öld, stofnað af Guðbjörgu Ringsted; og safn Góðtemplarareglunnar á Íslandi (I.O.G.T.) sem stofnuð var í húsinu 10. janúar 1884. Húsið var heimili Friðbjörns Steinssonar, stofnanda reglunnar og það er kennt við hann.

Friðbjarnarhús á Akureyri

Friðbjarnarhús var byggt árið 1856 af Steini Kristjánssyni járnsmið og fyrrum bóndi að Hólum í Öxnadal, og konu hans Guðnýju Kráksdóttur. Síðar eignaðist sonur þeirra, Friðbjörn Steinsson bókbindari, bóksali og bæjarfulltrúi húsið og bjó þar til dauðadags, árið 1918.[1]

Friðbjörn Steinsson, fæddur árið 1838, var mikill athafnamaður. Hann sat í stjórn bæjarins í 40 ár, var mikill félagsmálamaður og átti þátt í stofnun margra félaga, svo sem Handiðnamannafélagið, sem var stofnað í þeim tilgangi að koma í veg fyrir drykkju, Framfarafélagið sem kom á stofn sunnudagaskóla fyrir iðnaðarmenn, ásamt því sem það efndi til leikfimikennslu og alþýðufyrirlestra. Friðbjörn stóð einnig að stofnun Jarðræktarfélags Akureyrar og Iðnaðarmannafélags Akureyrar sem hóf kvöldskóla fyrir iðnaðarmenn.[2]

Friðbjörn er þekktastur sem einn frumherja og stofnenda Góðtemplarareglunnar á Íslandi (I.O.G.T.). Hann var einn 12 félaga sem stofnuðu fyrstu stúku landsins, Ísafold nr. 1, á heimili hans í Friðbjarnarhúsi, þann 10. janúar árið 1884.[3] [4]

Eftir daga Friðbjörns gekk húsið kaupum og sölum[5] uns Góðtemplarareglan (stúkurnar Ísafold og Brynja) keyptu húsið 25. september árið 1961.[6] [7] Húsið var gert upp af hagleikssmiðnum Sverri Hermannssyni sem sérhæfði sig í að gera upp gömul hús á Akureyri.[8] Í húsinu var útbúin félagsaðstaða fyrir Góðtemplararegluna sem og minjasafn fyrir myndir, stofnskrár og heiðursskjöl reglunnar. Gísli Guðmann gerði lágmyndir úr gifsi af heiðursfélögum Akureyrarstúknanna fyrir safnið. Í húsinu er uppsettur stúkusalur eins og þeir voru á fyrstu árum stúkunnar og einnig nokkrir munir frá starfi reglunnar á Sauðárkróki. Að auki voru í húsinu ýmsir munir úr búi Friðbjarnar og Guðnýjar. Sunnan við húsið var sett upp brjóstmynd af Friðbirni eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara. Neðarlega á lóð hússins var gamall ljósastaur úr steyptu járni, líklega frá árinu 1896, sá eini sinnar tegundar á Akureyri.[9]

Safnið hefur að geyma merkar söguheimildir um það mikla félagsmálastarf á Akureyri sem spratt undan viðjum stúkumanna.[10] Góðtemplarareglan sem var stórveldi í landinu var sérstaklega sterk á Akureyri.[11] Góðtemplarar voru á sínu tíma með töluverðan rekstur á bænum. Auk Æskulýðsheimilis Templara hóf reglan að reka kvikmyndahúsið Borgarbíó árið 1946 og rekstur bindindishótels árið 1953 að Hótel Varðborg. Flugkaffi, veitingasala á Akureyrarflugvelli var einnig rekin af reglunni.[12][13] Ennfremur ráku stúkurnar barnaheimili að Litlu-Tjörnum í Ljósavatnsskarði fyrir um 30 börn.[14] [15]

 

Árið 2009 færði Góðtemplarareglan Akureyrarbæ Friðbjarnarhús til eignar.[16] Ári síðar auglýsti bærinn Friðbjarnarhús til leigu. Síðan þá hefur Guðbjörg Ringsted listakona rekið leikfangasafn í húsinu. Þar kennir margra grasa enda hefur Guðbjörg safnað leikföngum í meira en tvo áratugi.[17] Árið 2017 var leigusamningur leikfangasafnsins við Akureyrarbæ framlengdur til fjögurra ára.[18]

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Dagur - 124. tölublað - HelgarDagur (1. júlí 1997). „Friðbjarnarhús á Akureyri - minjasafn I.O.G.T.“. Dagur - 124. tölublað - HelgarDagur. bls. 12. Sótt 8. mars 2021.
  2. Dagur - 151. tölublað - Helgarblað (13. ágúst 1988). „Friðbjarnarhús: Eina minjasafn I.O.G.T. reglunnar“. Dagur - 151. tölublað - Helgarblað. bls. 4-5. Sótt 8. mars 2021.
  3. Dagur - 124. tölublað - HelgarDagur (1. júlí 1997). „Friðbjarnarhús á Akureyri - minjasafn I.O.G.T.“. Dagur - 124. tölublað - HelgarDagur. bls. 12. Sótt 8. mars 2021.
  4. Dagur - 125. tölublað (05.07.1996) (5. maí 1996). „Minjasafnið í Friðbjarnarhúsi opnað“. Dagur - 125. tölublað (05.07.1996). bls. 10. Sótt 8. mars 2021.
  5. Dagur - 151. tölublað - Helgarblað (13.08.1988) (13. ágúst 1988). „Friðbjarnarhús: Eina minjasafn I.O.G.T. reglunnar“. Dagur - 151. tölublað - Helgarblað (13.08.1988). bls. 4-5. Sótt 8. mars 2021.
  6. Eining - 12. tölublað (01.12.1961) (1. desember 1961). „Góðtemplararegla kaupir Friðbjarnarhús“. Eining - 12. tölublað (01.12.1961). bls. 7. Sótt 8. mars 2021.
  7. Nútíminn - 20. tölublað (25.11.1961) (25. nóvember 1961). „Góðtemplarareglan kaupír Friðbjarnarhús“. Nútíminn - 20. tölublað (25.11.1961). bls. 8. Sótt 8. mars 2021.
  8. Dagur - 102. tölublað - HelgarDagur (01.06.1996) (1. júní 1996). „Smíöaö í hálfa öld“. Dagur - 102. tölublað - HelgarDagur (01.06.1996). bls. 8-9. Sótt 8. mars 2021.
  9. Dagur - 124. tölublað - HelgarDagur (01.07.1995) (1. júlí 1997). „Friðbjarnarhús á Akureyri - minjasafn I.O.G.T.“. Dagur - 124. tölublað - HelgarDagur (01.07.1995). bls. 12. Sótt 8. mars 2021.
  10. Dagur - 125. tölublað (05.07.1996) (5. júlí 1996). „Minjasafnið í Friðbjarnarhúsi opnað“. Dagur - 125. tölublað (05.07.1996). bls. 10. Sótt 8. mars 2021.
  11. Eining - 12. tölublað (01.12.1961) (1. desember 1961). „Góðtemplararegla kaupir Friðbjarnarhús“. Eining - 12. tölublað (01.12.1961). bls. 7. Sótt 8. mars 2021.
  12. Tíminn Sunnudagsblað - 1. tölublað (20.01.1974) (20. janúar 1974). „Myndir í tengslum við hátíðahöld templara á Akureyri og starf þeirra þar“. Tíminn Sunnudagsblað - 1. tölublað (20.01.1974). bls. 16-17. Sótt 8. mars 2021.
  13. Eirikur Sigurðsson (4. október 1962). „Vagga Góðtemplarareglunnar á Íslandi“. Nútíminn - 8. tölublað (04.10.1962). Sótt 8. mars 2021.
  14. Dagur - Akureyrar kaupstaður 100 ára - Hátíðarblað Dags (29.08.1962) (29. ágúst 1962). „Fyrsta stúka landsins stofnuð á Akureyri“. Dagur. bls. 9. Sótt 8. mars 2021.
  15. Dagur - 124. tölublað - HelgarDagur (01.07.1995) (1. júlí 1995). „Friðbjarnarhús á Akureyri - minjasafn I.O.G.T.“. Dagur - 124. tölublað - HelgarDagur (01.07.1995). bls. 12. Sótt 8. mars 2021.
  16. Þröstur Ernir Viðarsson (29. október 2009). „Vilja færa Akureyrarbæ friðbjarnarhús til eignar“. Vikublaðið. Sótt 8. mars 2021.
  17. SunnudagsMogginn - 08. maí (08.05.2011) (8. maí 2011). „Fyrir börn á öllum aldri“. Morgunblaðið/ Árvakur. bls. 11. Sótt 8. mars 2021.
  18. Hulda Sif Hermannsdóttir (27. september 2017). „Leikfangasafnið á Akureyri áfram í Friðbjarnarhúsi og Hymnodia í Laxdalshúsi“. Akureyrarstofa. Sótt 8. mars 2021.