21st Century Fox var bandarísk fjölmiðlasamsteypa með höfuðstöðvar í miðborg Manhattan í New York-borg. Það var stofnað árið 2013 sem annað tveggja fyrirtækja sem varð til við skiptingu News Corporation milli þess og nýju News Corp. 21st Century Fox tók við eignum News Corporation í sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslugeiranum. Fyrirtækið var fjórða stærsta fjölmiðlasamsteypa heims þar til Walt Disney-samsteypan keypti það árið 2019.

Höfuðstöðvar 21st Century Fox á Manhattan.

Meðal eigna 21st Century Fox voru 20th Century Fox-kvikmyndaverið og sjónvarpsfyrirtækið Fox Broadcasting Company. Auk þess átti fyrirtækið meirihluta í National Geographic Partners sem fer með viðskiptahluta National Geographic Society. Fyrirtækið átti auk þess margar sjónvarpsstöðvar utan Bandaríkjanna, eins og Star India. Það var í 109. sæti á Fortune 500-listanum.

Árið 2018 var samþykkt kauptilboð Disney í megnið af afþreyingarframleiðslu fyrirtækisins upp á 71,3 milljarða dala. Aðrar eignir voru settar í fyrirtækið Fox Corporation. Eignum sem Disney keypti var dreift á hinar ýmsu deildir þeirrar samsteypu.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.