Þvagsýrugigt
Þvagsýrugigt er er liðbólgusjúkdómur sem einkennist af því að of mikið magn af þvagsýru safnast fyrir í líkamanum. Þvagsýrukristallar falla út í liði og valda þar bólgu, og þá oftast í einum lið í einu. Án meðferðar getur sjúkdómurinn valdið varanlegum liðskemmdum. Oftast leggst þvagsýrugigt á nærlið stórutáar og kallast það podagra.
Þvagsýrugigt hefur verið þekkt í þúsundir ára. Hægt er að bæla niður þvagsýrugigt með nútíma læknisráðum. Í mörgum fæðutegundum er lífrænt efnasambandið púrín. Líkaminn breytir þessu efnasambandi í þvagsýru. Tengsl eru milli offitu og ofurmagns þvagsýru í blóði. Þvagsýra skilst betur út úr líkamanum ef mikið vatn er drukkið og fæða sem inniheldur mikið vatn og gerir þvagið alkaliskt (basiskt) eins og grænmeti og ávextir flýta fyrir útskilnaði þvagsýru um nýru. Lyfið allópúrínól virkar þannig að það hindra framleiðslu þvagsýru í líkamanum. Töluvert fleiri karlmenn en konur greinast með þvagsýrugigt og konur fá þvagsýrugigt síðar á ævinni eða eftir tíðahvörf. Þvagsýrugigt er algengur sjúkdómur á Vesturlöndum og fá um 1% fólks sjúkdóminn. Mun fleiri karlar en konur greinast með sjúkdóminn. Konur fá þvagsýrugigt síðar á ævinni en karlar og ekki fyrir tíðahvörf.
Þvagsýrugigt er algengasti sjúkdómurinn sem veldur liðbólgum og hefur möguleika á lækningu. Ef sjúkdómurinn er ekki meðhöndlaður getur hann valdið liðbólgum og verkjum og eyðileggingu á liðum og skertum lífsgæðum og ýmsum fylgisjúkdómum. Þvagsýrugigt er allt að fjórfalt algengari meðal karla en kvenna. Talið er að sjúkdómurinn sé vangreindur og að fjöldi þeirra sem þjást af þvagsýrugigt fari vaxandi. Á Vesturlöndum er algengi sjúkdómsins talið 0,9-2,5% í Evrópu en 4% í Bandaríkjunum og yfir 7% hjá sjúklingum yfir 65 ára.[1]
Þvagsýra er síðasta stig í niðurbroti púrína sem koma úr fæðu eða myndast við frumuniðurbrot. Of há þvagsýrugildi geta stafað af því að of mikil þvagsýra myndast (10% ) eða af því að of lítill útskilnaður verður á þvagsýru (90%). Flest dýr önnur en prímatar mynda svokallaða uricasa sem brjóta niður þvagsýru sem skilst út um nýru. Þvagsýrugildi prímata eru hærri en annarra dýra. Við eðlilegt sýrustig í líkamanum er þvagsýra á jónuðu formi sem úrat. Ef styrkur úrats eykst þá er hætta á ofmettun og kristallamyndun. Ekki fær nema hluti þeirra sem mælast með há þvagsýrugildi þvagsýrugigt því aðrir þættir eins og hitastig, sýrustig og ofþornun í lið skipta máli. Þvagsýrukristallar leysast frekar upp ef hitastigið er hærra og er það ástæða þess að þvagsýrugigt kemur ekki í mjaðmir og axlir heldur í smáliðum útlima því þar er hitastigið lægra. Þvagsýrugigtarhnútar (trophi) eru einkennandi fyrir langvarandi þvagsýrugigt.
Lífsstíll
breytaTalið er 12% tilvika þvagsýrugigtar megi rekja til lífstíls og eru sterk tengsl við áfengisdrykkju, neyslu drykkja sem sykraðir eru með frúktósa, neyslu innmatar eins og lifrar og sjávarfangs eins og skelfisks. Meðal fæðutegunda sem innihalda mikið magn púríns og geta valdið háu þvagsýrugildi eru þurrkaðar ansjósur, rækjur, innmatur, þurrkaðir sveppir, þang og ger í bjór. Líkamleg áföll og skurðaðgerðir geta einni valdið háum þvagsýrugildum. Ekki er talið að hófleg neysla grænmetis sem inniheldur mikið púrín (baunir, linsubaunir, spínat) tengist þvagsýrugigt eða að heildarneysla próteina skipti máli. Áfengisneysla hefur hins vegar mikil áhrif og sterkt áfengi er þar hættulegra en bjór og léttvín. Svo virðist sem kaffidrykkja, C-vítamín neysla og neysla mjólkurafurða og líkamleg þjálfun minnki líkur á þvagsýrugigt. Það er að hluta talið tengjast því að þetta minnkar mótstöðu gegn insúlíni.