Þorleifur jarlsskáld

Þorleifur jarlsskáld (eða jarlaskáld) frá Brekku í Svarfaðardal var sonur Ásgeirs rauðfelds í Brekku og Þórhildar konu hans. Tvíburabróðir Þorleifs var Ólafur völubrjótur en systir þeirra bræðra var Yngveldur fagurkinn. Þorleifur er af fyrstu kynslóð innfæddra Íslendinga og gæti verið fæddur milli 920 og 930. Í Svarfdælu segir að þeir bræður hafi fæðst í seli í Vatnsdal inn af Svarfaðardal. Hann ólst upp hjá Miðfjarðar-Skeggja móðurbróður sínum að Reykjum í Miðfirði en kom svo heim í Svarfaðardal á ný og dvaldi þar um hríð. Brekkufólkið kemur mikið við sögu í Svarfdælu en þeir bræður voru banamenn berserksins Klaufa Hafþórssonar. Einnig er til sérstakur þáttur um hann, Þorleifs þáttur jarlsskálds. Hann segir frá æfi Þorleifs eftir að hann fór úr Svarfaðardal og utanferðum hans og ekki síst viðskiptum hans við Hákon Sigurðarson Hlaðajarl. Af þeim fékk hann viðurnefnið jarlsskáld. Eftir heimkomuna settist hann að sunnanlands og bjó á Höfðabrekku í Mýrdal. Lítið er til af kveðskap Þorleifs, þó eru nokkrar vísur eftir hann tilfærðar í Svarfdælu, Þorleifs þætti, Landnámabók og víðar.[1] Þorleifur var veginn á alþingi á Þingvöllum um 990 og er heygður þar.

Ættfærslan hér að ofan er samkvæmt Svarfdælu. Samkvæmt Þorleifsþætti voru bræðurnin þrír, Ólafur elstur, þá Helgi hinn frækni og Þorleifur yngstur. Í Landnámu hefur Yngveldur viðurnefnið rauðkinn.

Skáldsaga Þórarins Eldjárns, Hér liggur skáld (Rvík 2012), er um Þorleif. Grímur Thomsen orti einnig um Þorleif jarlsskáld. Kvæðið heitir Jarlsníð og þar í eru hin fleygu vísuorð „Enginn skyldi skáldin styggja, skæð er þeirra hefnd.“

Heimildir

breyta
  1. Jónas Kristjánsson 1956. Formáli að Þorleifs þætti jarlsskálds. Íslensk fornrit IX, Hið íslenska fornritafélag