Þinglýsing
Þinglýsing er opinber skráning skjala sem gegnir því hlutverki að afla réttindum þeim sem skjölin taka til, verndar gagnvart þriðja manni. Hið opinbera þinglýsir margs konar samningum og gjörningum en slíkt er í höndum sýslumanna sem eru þinglýsingarstjórar, hver í sínu umdæmi. Þinglýsing merkir að opinber skráning réttinda hafi átt sér stað og á oftast við eignarrétt eða veðrétt. Þannig er fasteignalánum þinglýst og veðbókarvottorði sömuleiðis. Þannig er það staðfest af hinu opinbera hver hefur veð í viðkomandi eign og í hvaða röð. Á ensku er þinglýsing Register.
Þinglýsingavottorð (veðbókarvottorð)
breytaÞinglýsingavottorð, eru gjarnan nefnd veðbókarvottorð, er vottorð eða staðfesting á því hvað hefur verið skráð í þinglýsingabók um tiltekna eign. Hvað varðar fasteignir kemur þar fram hverjir eru þinglýstir eigendur hennar, hvaða veðbönd og kvaðir hvíla á henni og hvort eignaskiptayfirlýsingu hefur verið þinglýst ef um fjöleignahús er að ræða.
Þinglýsingarbækur
breytaÍ þinglýsingarlögum er gert ráð fyrir að meginatriði úr skjali sem komið er með til þinglýsingar sé fært í þinglýsingabók. Jafnframt er gert ráð fyrir að færa megi þinglýsingarbækur í tölvutæku formi. Í langflestum umdæmum er efni yfirgnæfandi meirihluta þinglýstra skjala fært í tölvu, sem tengist gagnabanka Fasteignamats ríkisins, jafnframt því sem skjölin er skönnuð inn (myndlesin) þegar þeim er þinglýst. Sameiginlegur gagnabanki þinglýsingaskráningar sýslumanna, Fasteignamats ríkisins og sveitarfélaga hefur verið nefndur “Landskrá fasteigna”.
Hæg er að nálgast upplýsingar úr þinglýsingabókum hjá þinglýsingarstjórum. Þar má fá þinglýsingarvottorð fyrir einstakar eignir og einnig hægt að fá ljósrit einstakra þinglýstra skjala, svo sem eignaskiptayfirlýsingum. Nálgast má þinglýsingarvottorð um sérhverja fasteign sem færð hefur verið í Landskrá fasteigna hjá hvað embætti sýslumanns sem er. Sama á við um ökutæki, nálgast má þinglýsingarvottorð fyrir öll skráð ökutæki hjá hvaða sýslumannsembætti sem er.
Hægt er að kaupa aðgang að veðbandayfirlitum hjá Fasteignamati ríkisins og hjá Lánstrausti hf. Sá aðgangur takmarkast við þær eignir sem skráðar eru í gagnagrunni Landskrár fasteigna.
Þinglýsingarumdæmi
breytaSkjölum sem varða fasteignir ber að þinglýsa í því umdæmi sem fasteignin er. Skjöl sem varða skip ber að þinglýsa í umdæmi þar sem skip er skráð. Skjöl sem varða skráð ökutæki ber að þinglýsa í umdæmi þar sem skráður eigandi á lögheimili og sama á við um lausafé sem ekki er skráð í ökutækja- eða skipaskrá. Skjöl sem varða lausafé ber að þinglýsa í umdæmi þar sem skráður eigandi lausafjárins er með lögheimil. Skjöl sem varða loftför ber að þinglýsa hjá sýslumanninum í Reykjavík.