Þórsnesþing á Þórsnesi var héraðsþing sem stofnað var á landnámsöld og var annað tveggja þinga sem sögur herma að hafi starfað fyrir stofnun Alþingis, en hitt var Kjalarnesþing.

Heimildir um stofnun Þórsnesþings er að finna í Eyrbyggju og Landnámabók. Þar er sagt að landnámsmaðurinn Þórólfur Mostrarskegg hafi sett þingið þar sem Þórslíkneski hans rak á land.

Í Eyrbyggju segir frá því að barist hafi verið á Þórsnesþingi, líklega á árunum 932–934, og eftir það hafi þingstaðurinn verið færður innar á nesið. Ástæðan fyrir bardaganum var deilur um hvar þingmenn skyldu ganga örna sinna, en samkvæmt reglum þingsins áttu þeir að fara út í svokallað Dritsker til þess að saurga ekki þingstaðinn.

Eftir að fjórðungaþingum var komið á var fjórðungsþing Vestfirðinga á Þórsnesi. Fjórðungsþingin hafa líklega lagst af á 12. öld en héraðsþing (vorþing) var áfram haldið á Þórsnesi.