Þórarinn Sveinsson (ábóti)
Þórarinn Sveinsson (d. 1253) var ábóti í Þingeyraklaustri í nærri hálfa öld á 13. öld. Hann tók við þegar Karl Jónsson lét af embætti í annað sinn árið 1207 og gegndi embættinu til dauðadags, sem yfirleitt er talinn hafa verið sumarið 1253 en stundum þó 1255, eða í 46-48 ár. Hann hefur því verið fremur ungur þegar hann tók við embætti. Ekkert er vitað um uppruna hans.
Þótt Þórarinn væri svona lengi ábóti fer litlum sögum af embættisferli hans og hann kemur lítið við heimildir, að minnsta kosti þær sem varðveist hafa. Ef til vill hafa munkarnir í Þingeyraklaustri lítið skipt sér af veraldlegu vafstri um hans daga þótt þá væri mikil ófriðaröld á Norðurlandi, en einbeitt sér að fræðimennsku og sagnaritun auk bænahalds, að minnsta kosti voru ýmsir fræðimenn í klaustrinu, svo sem Styrmir fróði Kárason.
Þegar Þórarinn dó hafði Vermundur Halldórsson prestur fjárforráð á Þingeyrum og varð hann svo næsti ábóti klaustursins.