Ópíumstríðin
Ópíumstríðin skiptast í Fyrra ópíumstríðið frá 1839 til 1842 og Seinna ópíumstríðið milli 1856 til 1860. Þessi stríð voru viðskiptadeilur milli kínverskra stjórnvalda sem störfuðu fyrir Tjingveldið og Breska heimsveldisins og tengdust innflutningi á ópíum til Kína.
Ópíum hafði verið þekkt í Kína frá 7. öld og notað til lækninga meðal annars sem deyfilyf. Um miðja 17. öld var byrjað að blanda tóbaki og ópíum saman og ópíum var reykt en ekki tekið inn eins og áður. Breskir kaupmenn fluttu gríðarlegt magn af ópíum til Kína og innflutningur óx mikið á 18. öld. Árið 1729 voru fluttar til Kína 200 kistur af ópíum en árið 1790 voru fluttar þangað árlega 4000 kistur eða 256 tonn af ópíum. Árið 1858 hafði ópíumsala breskra kaupmanna aukist í 70000 kistur (4480 tonn) sem er svipað og framleitt var af ópíum í heiminum í kringum árið 2000.