Íslenskar barnabækur
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. |
Barnabækur á íslensku þjóna margs konar hlutverki. Hér má nefna skemmtigildi, uppeldislegt gildi, menningarlegt gildi, menntunargildi og upplýsingagildi svo eitthvað sé nefnt. Það er langur vegur frá fyrstu íslensku barnabókinni sem gefin var út árið 1780 þ.e. bók Vigfúsar Jónssonar: Barnaljóð sem hann orti handa dóttur sinni, til dagsins í dag. Í bókinni leggur hann dóttur sinni lífsreglurnar. Fyrsta skáldsagan fyrir börn kemur svo út 1795 og ber heitið Sumargjöf. Í þeirri bók eru stuttar sögur sem fjalla um það hvað börn megi ekki gera og örlög þeirra ef þau fara ekki eftir þeim ráðleggingum. Þar er t.d. stúlkum hótað hræðilegum örlögum ef þær vilja lesa, skrifa og reikna í stað þess að sauma, prjóna og sinna bústörfum. Þegar leið fram á 19. öldina þá varð vaxandi þjóðernisvitun til þess að skrá þjóðsögur og ævintýri sem lifað höfðu með þjóðinni og gefa út. Á tuttugustu öldinni var algengt að skrifa bernskuminningar eða bækur sem gerðust í sveit eða borg og oft var sveitalífið svo gott og fagurt í mótsögn við lífið í borginni. Á þeim tíma voru líka bækur skrifaðar til að uppfræða börnin t.d. um dýr, náttúru landsins, og mannlíf á fjarlægum slóðum. Raunsæisstefnan í bókmenntum hafði líka áhrif á barnabækur þegar leið á tuttugustu öldina. Skrifaðar voru bækur um börn sem tókust á við erfiðleika og elfdust við það og fengu trú á sjálfum sér. Fræðibækur fyrir börn komu fram á sjónarsviðið og eins sérstök barnaljóð og barnaleikrit. Þekktasta ljóðabókin fyrir börn er Vísnabókin sem Símon Jóh. Ágústsson safnaði efni í. Fyrsta barnaleikritið sem fór á fjalirnar er líklega Litli-Kláus og Stóri-Kláus sem sýnt var um jólin 1931-2 í Iðnó. Fyrsti íslenski listamaðurinn sem bjó til myndabók handa börnum var Muggur (Guðmundur Thorsteinsson) en þekktasta bók hans er Sagan af Dimmalimm sem kom út 1942. Bækur hugsaðar sem afþreying fóru svo að koma út í kjölfar stríðsins. Þá var mikið þýtt af þannig efni og eru bækur Enid Blyton þær þekktustu. [1]
Tilvísanir
breyta- ↑ Aðalsteinsdóttir., Silja (1982). Íslenskar barnabækur, 1780-1979. Mál og menning. OCLC 16270781.