Ágústa Guðmundsdóttir

Ágústa Guðmundsdóttir (f. 1945) er fyrrum prófessor við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og rannsóknarstjóri líftæknifyrirtækisins Zymetech.

Ágústa Guðmundsdóttir
Fædd1945
StörfPrófessor emeritus við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og rannsóknarstjóri líftæknifyrirtækisins Zymetech.

Ferill breyta

Ágústa lauk BS námi í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 1980[1] og varð þar með ein af fyrstu matvælafræðingum til að útskrifast úr skólanum.[2] Þá lauk hún BS námi í lífefnafræði frá sama skóla 1984 og árið 1988 lauk hún doktorsprófi í örverufræði og sameindaerfðafræði frá University of Virginia, School of Medicine.[1] Ágústa hefur unnið við rannsóknarstörf og kennslu um árabil. Frá 1980 – 1984 vann hún við rannsóknir hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands[3] og frá 1989 hefur hún verið gestaprófessor við University of Virginia, School of Medicine.[1] Hún var dósent í matvælaefnafræði 1989-1993 og 1993 var hún skipuð fyrsti prófessorinn í matvælaefnafræði við Háskóla Íslands. Með skipuninni varð hún fyrst kvenna til að verða skipuð prófessor við raunvísindadeild HÍ.[2] Ágústa hefur einnig stundað rannsóknir við University of California, San Francisco og New York University.[4]

Rannsóknir breyta

Rannsóknir Ágústu hafa beinst að notkun þorskaensíma gegn örverusýkingum og þróun lækningavara. Í doktorsverkefni sínu "Genetic Analysis of BtuB: A Vitamin B12 Binding and Transport Protein in the Escherichia coli Outer Membrane" framkvæmdi hún erfðafræðilega greiningu á BtuB. Ágústa hefur einnig ritað fjölda vísindagreina og bókakafla.[5]

Líftæknifyrirtækið Zymetech breyta

Ágústa er annar af tveimur stofnendum líftæknifyrirtækisins Zymetech. Fyrirtækið, sem var stofnað árið 1999, byggist á rannsóknum Ágústu og Jóns Braga Bjarnasonar heitins, prófessors í lífefnafræði. Zymetech nýtir meltingarensím úr Norður-Atlantshafsþorski sem í gegnum tíðina hefur að mestu leyti verið fargað og þar með þróað vöru sem margfaldar virði þorsksins.[6] Fyrirtækið framleiðir m.a. lækningavöruna PreCold gegn kvefi og ýmiss konar húð- og snyrtivörur. Má þar nefna Penzim húðáburðinn. Þá vinnur fyrirtækið að þróun lækningavara gegn bakteríusýkingum, húðkvillum og til sáragræðinga.[7]

Fyrirtækið Zymtech, hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands árið 2015 sem Ágústa veitti viðtöku. Þau verðlaun eru veitt til fyrirtækja sem þykja skara fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsókna- og nýsköpunarstarfi og náð hafa árangri á markaði. Á Matvæladaginn 20. október 2016 veitti Matvæla- og næringarfélag Íslands Ágústu heiðursviðurkenningu fyrir lofsvert framtak í þágu matvæla- og næringarrannsókna á Íslandi. Þetta var í fyrsta skipti sem slík viðurkenning var veitt.[2] Þann 2. nóvember 2017 var málþingið Rannsóknir og verðmætasköpun haldið til heiðurs Ágústu.[8]

Nefndar- og stjórnarstörf breyta

Ágústa hefur sinnt fjölda nefndar- og stjórnarstarfa bæði innan og utan Háskóla Íslands þar sem hún hefur verið tengiliður rannsókna og nýsköpunar.[2][1] Hún var formaður kynningarnefndar háskólaráðs 1990-1993 og sat í stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA) 2003-2009 og í stjórn Matís 2006-2016. Ennfremur var Ágústa fyrsta konan sem var skipuð formaður stjórnar Landsbókasafns-Háskólabókasafns 2014-2018. Þá hefur hún verið formaður í stjórn Samtaka íslenskra líftæknifyrirtækja frá 2012 og frá 2016 hefur hún verið vísindalegur ráðgjafi líftæknifyrirtækisins Enzymatica AB og stjórnarformaður vísinda- og læknisráðgjafar Enzymatica. Hún var einnig forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur 2015-2016.[1] Árið 2019 var Ágústa ein af tíu frumkvöðlum og fjárfestum sem skipaðir voru af Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til setu í hugveitu ráðherra. Verkefni hugveitunnar er að leggja til ábendingar, tillögur eða vandamál sem þarfnast úrlausna á málefnasviðinu. Einnig að veita endurgjöf á áætlanir og verkefni ráðuneytanna sem snerta málaflokkinn.[9]

Einkalíf breyta

Fyrrverandi maki Ágústu er Pálmi Ragnar Pálmason, verkfræðingur en þau eiga 16 afkomendur þar af 3 börn, þau Ingibjörgu Ýr, skólastjóra Fossvogsskóla, Önnu Theodóru, ljósmyndara í New York og Guðmund framkvæmdastjóra í London. Seinni maki var Jón Bragi Bjarnason heitinn prófessor í lífefnafræði við HÍ. Foreldrar Ágústu voru hjónin Þuríður Þórarinsdóttir, myndlistarkennari og Guðmundur Ágústsson, bakarameistari og skákmaður.

Heimildir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „Ágústa Guðmundsdóttir prófessor emeritus. Ferilskrá“. Sótt 23. júní 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Fyrsta heiðursviðurkenning MNÍ“. Sótt 23. júní 2019.
  3. Erla Huld Halldórsdóttir og Guðrún Dís Jónatansdóttir. (1998). Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna. Ágústa Guðmundsdóttir (bls. 65). Bækur.is.
  4. Matís. (2014, 17. nóvember). Frá grunnrannsóknum til lækningavara á markaði Geymt 23 júní 2019 í Wayback Machine. Sótt 23. júní 2019.
  5. „Ágústa Guðmundsdóttir prófessor emeritus. Ritaskrá“. Sótt 23. júní 2019.
  6. Háskóli Íslands. (2015, 15. apríl). Zymetech hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands. Sótt 23. júní 2019.
  7. Zymetech. (e.d.). Rannsóknir og þróun Geymt 23 júní 2019 í Wayback Machine. Sótt 23. júní 2019.
  8. Háskóli Íslands. (2017). Rannsóknir og verðmætasköpun – Málþing til heiðurs Ágústu Guðmundsdóttur. Sótt 23. júní 2019.
  9. Stjórnarráð Íslands. (2019). Nýsköpunarráðherra kynnir Kríu frumkvöðlasjóð. Sótt 9. janúar 2020.

Rannsóknargreinar breyta

Bókarkaflar breyta

  • Gudmundsdóttir, Á., Stefánsson, B. and Bjarnason, J. B. (2013). Trypsin I in Fish. In Neil D. Rawlings and Guy S. Salvesen, Handbook of Proteolytic Enzymes, 3rd ed. (pp. 2621-2624). Oxford: Academic Press. Release date December 3. 2012.
  • Sveinsdóttir, H., Gudmundsdóttir, Á. and Vilhelmsson, O. (2009). Proteomics. In S. Nollet and P. Toldrá, Handbook of Seafood and Seafood Products Analysis (pp. 21-42). CRC Press.
  • Gudmundsdóttir, Á. and Bjarnason, J. B. (2007). Enzyme purification and determination of structure. In Bob Rastall, Novel enzyme technology for food applications (pp. 205-214). Woodhead Publishing Limited, Cambridge, UK