Wu Zetian

Keisaraynja Zhou-veldisins í Kína

Wu Zetian (624 – 16. desember 705),[1][2] einnig kölluð Wu Zhao, Wu Hou og síðar Tian Hoi, var kínverskur einvaldur sem réð yfir Kína, fyrst óformlega sem kona og ekkja kínverska keisarans, og síðar formlega sjálf sem ráðandi keisaraynja Kína (皇帝). Valdatíð hennar var kölluð síðara Zhou-veldið (周) og entist frá 684–705. Wu var eina konan sem réð formlega yfir Kína sem keisaraynja í meira en 2000 ára sögu kínverska keisaraveldisins.

Mynd af Wu Zetian.

Wu var frilla Taizong-keisara Tangveldisins. Eftir dauða hans giftist hún níunda syni hans og eftirmanni á keisarastól, Gaozong-keisaranum og varð keisaraynja hans árið 655. Hún naut þegar talsverðra valda áður en hún giftist keisaranum. Eftir að Gaozong-keisarinn lamaðist vegna heilablóðfalls árið 660 gerðist Wu umsjónarmaður keisarahirðarinnar og naut því valda til jafns við keisarann.[3] Keisarinn lést þann 20. desember 683 og Wu réð í eigin nafni sem keisaraynja Zhou-veldisins frá 690 til 705.

Wu þandi landamæri kínverska keisaraveldisins langt út fyrir fyrrverandi endimörk þess, djúpt inn í Mið-Asíu. Hún háði einnig nokkur stríð á Kóreuskaga, fyrst í bandalagi við konungsríkið Silla gegn konungsríkinu Goguryeo og síðan gegn Silla vegna hernáms á fyrrum landsvæðum Goguryeo. Innan Kína hafði valdabarátta Wu talsverð áhrif á samfélagsskipulag, sér í lagi með ríkisstuðningi við taóisma, búddisma, menntun og bókmenntir. Wu lét einnig byggja og bæta við ýmis mannvirki, þar á meðal stytturnar í Longmen-hellunum og minnismerki í Qianling-grafhýsinu.

Wu Zetian eignaðist fjóra syni og þrír þeirra urðu síðar sjálfir keisarar.

Tilvísanir

breyta
  1. Pollard, Elizabeth (2015). Worlds Together Worlds Apart. New York, NY: W.W. Norton Company. bls. 318.
  2. Paludan, Ann (1998). Chronicle of the Chinese Emperors: The Reign-by-Reign Record of the Rulers of Imperial China. New York, New York: Thames and Hudson, bls. 100.
  3. Paludan, 96