Wikipedia:Gæðagreinar/Keila (fiskur)
Keila (fræðiheiti: Brosme brosme) er nytjafiskur af vatnaflekkaætt, sem er ný ætt, en tilheyrði áður þorskaætt. Hún lifir í Norður-Atlantshafi bæði austan og vestan megin við Ísland. Keilan er löng, með sívalan bol, einn bakugga eftir endilöngu bakinu og einn langan raufarugga, sem báðir eru með einkennandi dökkri rönd yst og hvítum jaðri, auk eyrugga og kviðugga. Sporðurinn er lítill og hringlaga. Hún er með skeggþráð á neðri vör sem skagar eilítið fram fyrir þá efri og rönd eftir bolnum endilöngum. Roðið er þykkt og hreistrið smátt. Hún er móleit á lit sem fer frá rauðbrúnu og yfir í gulbrúnan eftir umhverfi. Yngri fiskar eru með sex ljósar þverrákir á síðunni.