Wikipedia:20.000 greinar

ATHUGIÐ: Öll framlög á síðu þessa eru álitin almannaeign. Þetta er nauðsynlegt svo að fréttamiðlar geti afritað fréttatilkynningu þessa og jafnvel búið til greinar úr henni án þess að þurfa að spá í GNU FDL.


Grein nr. 20.000 skrifuð á íslensku Wikipediu breyta

16. febrúar 2008

Íslenska útgáfa alfræðiritsins Wikipediu (http://is.wikipedia.org/) hefur nú náð þeim áfanga að innihalda 20.000 greinar. Grein númer 20.000 var „Franska Vestur-Afríka“ og fyrsta útgáfa hennar var skrifuð klukkan 12:28 þann 15. febrúar.

Hvað er Wikipedia? breyta

Wikipedia er alfræðirit í stöðugri þróun sem haldið er úti á netinu og byggir á framlagi lesenda þess. Í desember 2007 hafði Wikipedia 9,25 milljónir greina á 253 tungumálum — þar af voru rúmlega 2 milljónir greina á ensku útgáfunni sem er sú langstærsta. Sérstaða Wikipediu felst í því að greinar hennar eru skrifaðar af lesendunum sjálfum, hver sem er getur gert breytingar á nánast hvaða grein sem er á mjög einfaldan hátt. Annað sem er einstakt við Wikipediu er að hún er „frjáls“ í þeirri merkingu að hverjum sem er er frjálst að nota greinar af Wikipediu í hvaða tilgangi sem er svo lengi sem þess er getið hvaðan efnið er komið og að allar endurútgáfur eða verk byggð á efni frá Wikipediu séu ekki háð strangari skilyrðum en upprunalegi textinn.

Hugmyndin um alfræðirit sem hver sem er getur breytt er kannski ekkert sérlega traustvekjandi við fyrstu sýn en sjö ára löng reynsla sýnir að hún gengur vissulega upp. Enska útgáfa Wikipediu er nú stærsta alfræðirit heimsins með rúmlega 2,2 milljón greina en netútgáfa Encyclopædia Britannica sem er næststærsta alfræðirit sem gefið er út á ensku inniheldur 120.000 greinar. Athuganir óháðra aðila hafa einnig leitt í ljós að greinar á Wikipediu eru sambærilegar Britannicu hvað varðar gæði og áreiðanleika.

Wikipedia á íslensku breyta

Fyrsta íslenska alfræðiritið var Íslenska alfræðiorðabókin A-Ö sem kom út hjá Erni og Örlygi árið 1990. Hún var í þremur bindum og innihélt um 39.000 efnisorð. Síðan þá hefur ekkert íslenskt alfræðirit komið út á prenti. Íslenska útgáfa Wikipediu hóf göngu sína 5. desember 2003 og er fyrsta og eina alfræðiritið á íslensku á netinu. Það telur nú eins og áður segir 20.000 greinar um mjög fjölbreytt viðfangsefni. Ritið er í örum vexti en fjöldi greina í ritinu hefur tvöfaldast á innan við tveimur árum. Þó að íslenska útgáfan verði aldrei jafn víðtæk og sú enska er það fyllilega raunhæft markmið að íslenska Wikipedia verði víðtækasta alfræðiritið sem gefið hefur verið út á íslensku — mikilvægi þess fyrir tungumálið verður seint ofmetið.

Auk alfræðiritsins Wikipediu má nefna smærri systurverkefni hennar: Wikiorðabókina sem inniheldur nú tæplega 12 þúsund orð; Wikiheimild sem er safn 1.660 frumtexta sem ekki eru háðir höfundarétti eða falla undir frjálst notkunarleyfi; og Wikivitnun sem er safn tilvitnana með á sjöunda hundrað tilvitnanir á 159 síðum.

Ítarefni breyta

Fyrir frekari spurningar eða viðtöl, vinsamlegast hafið samband við notendur Wikipediu á: