Veltusund er gata í Reykjavík. 1824 lét Daninn og verslunarmaðurinn Petreus byggja faktora-íbúð við Austurstræti, semsagt íbúðir fyrir umsjónarmenn verslunar sinnar enda bjó hann í Danmörku.

Húsið gekk kaupum og sölum. Árið 1861 keypti Einar Bjarnason nokkurn hluta þess og byrjaði að versla þar. Einar var Árnesingur og var kallaður Einar stutti. Hann hætti verslunarrekstri 1871 og fór til Ameríku, en þá eignaðist C. F. Siemsen húsið.

Um þessar mundir hafði Jón Guðmundsson ritstjóri Þjóðólfs stofnað fyrsta kaupfélagið hér á landi. Það var hlutafélag og var stofnað með nokkrum efnuðum bændum í nágrenni Reykjavíkur, en hann sá um reksturinn. Þetta félag fékk nú inni í húsinu Austurstræti 1 og hóf verslun þar. En vegna þess að almenningur skildi ekki orðið „hlutafélag" lagaði hann það og kallaði „hlutaveltufélag", sennilega vegna mikillar veltu, eða til að útskýra hvernig eigendur fengu hluta af veltunni eftir eignarhlut. Síðar var nafnið stytt í Veltufélagið, og seinast varð úr því Velta, og festist það nafn við verslunina og húsið. Nafngiftin náði lengra, húsasundið þar á milli og Randersku húsanna, fekk nú nafnið Veltusund, og hefur haldið því síðan.

Þetta átti upphaflega að verða fyrirmyndar gata og ná alla leið suður að tjörn. En það líklega gleymdist árið 1883, þegar Schierbeck landlækni var leyft að reisa íbúðarhús norðan við kirkjugarðinn. Þegar það hús var risið af grunni, kom í ljós að það var einmitt þar sem Veltusund átti að vera, og nú var loku fyrir skotið að það gæti nokkurn tíma náð suður að tjörn. Þess vegna hefir það aldrei náð lengra en suður í Vallarstræti.