Valdaútvíkkun (Evrópusambandið)

Valdaútvíkkun (þýs. Kompetenzergänzungsbestimmung) er ein af grunnreglum Evrópusambandsins og kemur fram í 352. gr. sáttmála um starfsemi Evrópusambandsins.[1] Hún mælir fyrir um að undir vissum kringumstæðum geti Evrópusambandið sett reglur þrátt fyrir að ekki sé heimild fyrir reglusetningunni í sáttmálum sambandsins. Skyld þessari reglu er eldri kenning um „implied powers“, sem réttlætir það að fyllt sé í eyður sáttmála sambandsins þegar ekki er bein heimild í þeim fyrir tiltekinni reglusetningu sambandsins. Hún hefur nú að mestu vikið fyrir almennri heimild í 352. gr. sáttmála um starfsemi Evrópusambandsins.

Þrátt fyrir lögmætisreglu Evrópuréttarins, sem mælir fyrir um að Evrópusambandið og stofnanir þess þurfi að byggja gjörðir sínar á heimild í sáttmálum um sambandið, var við samningu sáttmála sambandsins talið ljóst að vegna viðskiptalegrar framþróunar og flækjustigs þeirra sviða sem sambandið væri að setja reglur á, væri ekki við samningu sáttmálanna hægt að sjá fyrir allar aðstæður sem upp geta komið, þar sem þyrfti að setja reglur til að ná fram markmiðum sambandsins.

Þess vegna er að finna í 352. gr. sáttmála um starfsemi Evrópusambandsins almenna heimild til valdaútvíkkunar, sem heimilar Ráðherraráðinu með samþykki Evrópuþingsins að setja reglur, þrátt fyrir að ekki sé til þess heimild í sáttmálum um Evrópusambandið, ef reglusetningin er nauðsynleg til að ná markmiðum samningsins.

Athugasemdir og heimildir breyta

  1. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. október 2012. Sótt 4. júní 2010.