Ekki skal rugla ginklofa við gin- og klaufaveiki.

Ginklofi (trismus nascentium) eða ungbarnastífkrampi er gerð af stífkrampa sem kemur fram í nýfæddum börnum.

Ginklofi á Íslandi

breyta

Fyrst er getið um ginklofa í minnisbók Odds biskups frá 1630 og einnig í riti Gizurar Péturssonar sem var prestur í Vestmannaeyjum 1687-1713. Ginklofi var mjög skæður á Heimaey í Vestmannaeyjum og eyjunni St. Kildu í Suðureyjum og er talið að 70-80% lifandi fæddra barna sem fæddust á þessum eyjum hafi dáið á fyrstu tveimur vikum frá fæðingu. Einkenni þessara eyja voru að íbúar lifðu mikið á sjófugli, einkum fýl og lunda.

Um miðja 19. öld var veikinni útrýmt í Vestmannaeyjum fyrir atbeina dansks læknis, Peter Anton Schleisner.

Með konungsúrskurði 6. júní 1827 var ákveðið að stofna læknisembætti í Vestmannaeyjum. Var A.F. Schneider skipaður læknir 1845 en á undan honum höfðu verið þrír læknar, sá seinasti A.S.I. Haaland, en ekki hafði tekist að ná tökum á barnadauða vegna ginklofa. Haaland vakti athygli á slæmu neysluvatni, almennum óþrifnaði og að naflastrengur barna í Vestmannaeyjum væri ekki eðlilega bundinn upp og ekki tíðkaðist að konur væru með börn sín á brjósti.

Schleisner læknir kom upp fæðingarstofnun í Vestmannaeyjum sem hann kallaði Stiftelsen. Þar voru viðhafðar strangar hreinlætisráðstafanir og notuð naflaolía á naflasár nýbura. Þessi naflaolía (Balsamum copaiba) var borin á daglega. Einnig var hugað að umhverfisvernd og mataræði og allt fuglakjöt bannað. Schleisner fór frá Vestmannaeyjum og fæðingarstofnunin Stiftelsen lagðist niður en áfram var haldið að nota naflaolíu. Í riti frá 1849 er skýrsla (udtog) Schleisners frá Íslandsdvölinni.

Í öðrum löndum tíðkaðist að sótthreinsa nafla barna með jurtum. Frumbyggjar Ameríku lögðu sundurskorinn kerlingareld (Lycoperdon pyriforme) við nafla barna uns stúfurinn féll af.

Heimildir

breyta