Nýja vinstrihreyfingin

(Endurbeint frá The New Left)

Nýja vinstrihreyfingin[1] (enska: The New Left) var stjórnmálahreyfing á breiðum grunni, sem spratt upp á Vesturlöndum á sjöunda áratug 20. aldar, og var aðallega virk á sjöunda og áttunda áratugnum. Þessi grein fjallar um starfsemi nýju vinstrihreyfingarinnar í Bandaríkjunum.

Nýja vinstrihreyfingin barðist fyrir breyttu samfélagi með áherslu á mannréttindi og borgaraleg réttindi: s.s. réttindi svartra; réttindi kvenna; feminisma; kynjahlutverk; réttindi hinsegin fólks; aðgengi að löglegu þungunarrofi og breytingar á afstöðu stjórnvalda til fíkniefnanotkunar.

Meðal þeirra hópa sem sameinuðust undir regnhlíf Nýju vinstrihreyfingarinnar voru Black Power baráttumenn; friðarsinnar sem börðust gegn vopnakapphlaupi og stríðsrekstri Bandaríkjamanna; feministar og frelsishreyfingar hinsegin fólks. Þungamiðja Nýju vinstrihreyfingarinnar var innan bandarísku háskólanna og meirihluti þátttakenda var ungt hvítt háskólafólk. Hreyfingin barðist gegn stöðnuðum fjölskyldu- og samfélagshugmyndum neyslusamfélags eftirstríðsáranna og lagði áherslu á frelsi og réttindi einstaklingsins, hvort sem um var að ræða jafnrétti hvítra og svartra; karla og kvenna; frjálst kynlíf; notkun fíkniefna eða frelsi til þess að þurfa ekki að sinna herþjónustu. Nýja vinstrihreyfingin og gagnmenningin (e. counterculture) sem henni fylgdi afhjúpaði hina hyldjúpu gjá sem ennþá klýfur bandarísku þjóðina í tvennt og kallast yfirleitt menningarstríðin (e. culture wars).[2]

Tilvísanir

breyta
  1. Nýja vinstrihreyfingin Geymt 31 október 2020 í Wayback Machine; Íslenska heitið á The New Left, Nýja vinstrihreyfingin, er þýðing Sigfúsar Daðasonar og er sótt í greinina "Um valdbeitingu í andófshreyfingunni" eftir Herbert Marcuse, sem birtist í Tímariti Máls og menningar 29. árgangi 2. tölublaði, 1.10.1968. https://timarit.is/page/6281304?iabr=on#page/n9/mode/2up/search/%22new%20left%22
  2. Hartman, Andrew, A war for the soul of America, 2nd ed. (Chicago, London: University of Chicago Press, 2019. ISBN-13: 978-0-226-62191-3.