Syrah
Syrah eða shiraz er dökk rauðvínsþrúga notuð í bragðmikil rauðvín. Þrúgan er upphaflega frá héraðinu Rhône í Frakklandi en hún hefur notið mikilla vinsælda um allan heim og er ræktuð víða. Nafnið „shiraz“ er notað við markaðssetningu á áströlskum vínum þar sem syrah er vinsælasta dökka vínþrúgan.
Syrah-vín eru bragðmikil með mikilli fyllingu. Bragðið teygir sig frá því að hafa ávæning af fjólum og berjum og getur auk þess haft keim af súkkulaði, kaffi og svörtum pipar. Með aldri fá þau aukna jarðtóna eins og af leðri og trufflum.