Strumparnir og eggið

Strumparnir og eggið (franska: L'Œuf et les Schtroumpfs ) er fjórða bókin í ritröðinni um Strumpana og kom út árið 1968. Listamaðurinn Peyo teiknaði og samdi söguna í samvinnu við Yvan Delporte. Hún var jafnframt fimmta strumpabókin sem kom út á íslensku árið 1979.

Söguþráður breyta

Strumparnir og eggið hefst á að strumparnir undirbúa veislu og þurfa egg til að baka köku. Tveir strumpar eru sendir út af örkinni, en eggið sem þeir finna reynist vera galdraegg, sem uppfyllir óskir þess sem slær í það. Óskaflóð strumpanna veldur þó fljótlega misklíð í þorpinu, sem leysist þegar ungi klekkst úr egginu.

Svikastrumpur hefst á að Kjartan galdrakarl bruggar seyði sem breytir honum í strump, þó þannig að dindilinn vantar. Hann kemst til strumpaþorpsins og gerir ýmsar tilraunir til að koma strumpunum í klandur, en án árangurs. Að lokum verður dindilsskorturinn honum að falli og strumparnir reka Kjartan á braut.

Hundraðasti strumpurinn segir frá vandræðum Yfirstrumps við að skipuleggja reglubundna tunglhátíð, sem kallar á þátttöku 100 strumpa, en þorpsbúar reynast aðeins 99 talsins. Hégómlegi strumpurinn býr sér til spegil til að dást að sér, Spegillinn lendir í eldingu og til verður hundraðasti strumpurinn, sem er spegilmynd hinna strumpanna en verður þó fullgildur íbúi þorpsins.

Íslensk útgáfa breyta

Bókin kom út á vegum Iðunnar árið 1979 í samvinnu við danska forlagið Carlsen. Þýðingin var gefin út undir dulnefninu Strumpur.