Staðarskáli er bensínstöð og veitingaskáli fyrir botni Hrútafjarðar. Skálinn er rétt vestan við Hrútafjarðarár og var tekin í notkun árið 2008, en þessi skáli tók við hlutverki eldri skála sem bar sama nafn og stendur við bæinn Stað rétt austan Hrútafjarðarár.

Staðarskáli fyrir botni Hrútafjarðar.
 
Gamli Staðarskáli

Fyrstu olíutankar voru settir upp við bæinn Stað rétt austan Hrútafjarðarár árið 1929 af dönsku fyrirtæki D.T.P.A. sem olífélagið Esso tók síðar við. Olífélagið Shell flutti síðan starfssemi við Stað. Um miðja öldina var settur upp við bensínsöluna lítill söluskúr fyrir sælgæti og gosdrykki. Staðarskálinn er formlega stofnaður 9. júní 1960 og varð landsþekktur enda í alfararleið á milli Norður- og Suðurlands. Hann var bækistöð flutningabíla og viðkomustaður Norðurleiðar. Á sumrin störfuðu þar um 35 - 40 manns.[1]

Árið 2008 byggði Vegagerðin nýja brú nokkru neðar þar sem Síkáin Hrútarfjarðar- og Seláin koma saman. Nýr Staðarskáli var byggður vestast í landi Staðar.

Ljóð eftir Þórarinn Eldjárn

breyta

Skáldið Þórarinn Eldjárn samdi ljóð um Staðarskála sem heitir „Staðarskáli er Ísland“.[2] Hann sagði Staðarskála vera miklu meira en þjóðvegasjoppa með salernum og tilburðum til matargerðar. „Staðarskáli er menningarlegt og sálfræðilegt fyrirbæri og á vissan hátt smækkuð mynd af Íslandi og spegill samfélagsins,”[3] sagði Þórarinn Eldjárn. Hann sagði ljóðið vera fyrst og fremst stemmningsljóð frá Staðarskála en honum teldi Staðarskáli vera einn íslenskasti staður sem til er. Þarna blandaðist saman sveitastemmning og borgarfólk sem rennur hjá. Formið er bundið en ekki rímað og þarna er vísað beint í Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar „Hér vil ég una ævi minnar daga".[4]

Hér er brot úr kvæðinu:

„Staðarskáli er Ísland, einhver þétting

í andrúmslofti veldur þeirri staðreynd.

Það er eins og mikið safngler sogi

í sjóðandi brennidepil alla geisla

inn í þessa miðstöð mannaferða

Mekka þeirra sem á landið trúa.“[5]

Tilvísanir

breyta
  1. Hörður Ingimarsson. „Feykir - 44. tölublað (24.11.2011)“.
  2. Jóhannes Sigurjónsson. „Dagur - Tíminn Reykjavík - 182. tölublað - Blað 2 (27.09.1997)“.
  3. Jóhannes Sigurjónsson. „Dagur - Tíminn Reykjavík - 182. tölublað - Blað 2 (27.09.1997)“.
  4. Jón Özur Snorrason. „Þjóðlíf - 8. tölublað (01.08.1991)“.
  5. „Staðarskáli er Ísland“.