Sparisjóður Siglufjarðar
Sparisjóður Siglufjarðar var íslenskur sparisjóður, stofnaður 1. janúar 1873. Hann var elsti starfandi sparisjóður landsins þegar hann hætti starfsemi sem sjálfstæður sparisjóður árið 2008.
Stofnun og saga
breytaSnorri Pálsson, kaupmaður í Siglufirði, var sá sem mest hvatti til stofnunar Sparisjóðs Siglufjarðar. Séra Bjarni Þorsteinsson, sem kunnur er fyrir söfnun þjóðlaga og störf að tónmennt, tók seinna við að stjórna sparisjóðnum. Sparisjóður Siglufjarðar var áratugum saman í sama húsi og Hótel Hvanneyri, en sparisjóðurinn byggði hótelið á sínum tíma. Starfsemin var flutt í nýtt húsnæði við Túngötu árið 1988.
Sparisjóður Siglufjarðar styrkti menningar- og íþróttastarf í Siglufirði áratugum saman. Hann styrkti Siglufjarðarkirkju, Bókasafn Siglufjarðar og dvalarheimili aldraðra í bænum. Fyrstu árin voru starfsmenn aðeins 2 eða 3, en árið 1991 voru þeir 10. Varasjóður sparisjóðsins nam á annað hundrað milljónum króna í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar, þrátt fyrir nokkur gjaldþrot fyrirtækja í bænum sem höfðu verið í viðskiptum við sparisjóðinn.[1] Árið 1990 var Sparisjóður Siglufjarðar rekinn með tæplega 13 milljóna króna tapi.[2] Árið 2004 voru 33 starfsmenn við sparisjóðinn.[3]
Endalok
breytaSparisjóður Siglufjarðar var sameinaður Sparisjóði Skagafjarðar árið 2008 eftir langar viðræður. Báðir sparisjóðirnir urðu þá eign sparisjóðsins Afls, sem þá var nýstofnaður. Sjónarmið þeirra sem vildu sameiningu þessara sparisjóða var að þeir þyrftu að sameinast til að lifa af. Talsverð andstaða var meðal heimamanna bæði í Siglufirði og í Skagafirði við þessa sameiningu. Valgeir Bjarnason, stjórnarmaður í Sparisjóði Skagafjarðar, taldi að gamall rígur milli Skagafjarðar og Siglufjarðar og tilfinningasemi væri hluti af vandanum við sameiningu sparisjóðanna. Ýmsir hluthafar og stofnfjáreigendur í báðum sparisjóðunum óskuðu eftir upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu um fyrirhugaða sameiningu sparisjóðanna en var neitað um þær upplýsingar.[4]Afl Sparisjóður var síðar yfirtekinn af Sparisjóði Mýrasýslu.[5]