Sparimerkjagifting

Sparimerkjagifting eða sparimerkjabrúðkaup kallaðist það þegar ungt fólk gekk í hjónaband til að geta leyst út skyldusparnað, en á árunum 1957-1993 var öllum ungmennum á aldrinum 16-25 ára skylt að spara ákveðinn hluta launa sinna, lengst af 15%, og greiddi vinnuveitandi þann hluta launanna með sparimerkjum sem viðtakandi límdi svo inn í þar til gerða sparimerkjabók og geymdi.

Sparimerkin fengust útborguð við 26 ára aldur en hægt var að fá undanþágu og fá uppsafnaðan sparnað greiddan út, meðal annars vegna skólanáms, við íbúðarkaup eða stofnun heimilis og var í síðastnefnda tilvikinu miðað við giftingu.

Þegar kom fram yfir 1970 fór að bera nokkuð á því að ungt fólk giftist eingöngu til að geta leyst út sparimerki sín. Stundum var um að ræða fólk sem átti þegar í ástarsambandi en einnig var algengt að fólk sem þekktist lítið sem ekkert giftist og var þá um hreint hagkvæmnishjónaband og málamyndagerning að ræða.[1] Í smáauglýsingum síðdegisblaðanna sáust oft auglýsingar eins og þessar:

„Sparimerkjagifting. Er kannski svipað ástatt fyrir þér, unga mær. Þú færð ekki að leysa fjárhagsvandræðin öðruvísi en að gifta þig. Leggðu þá nafn þitt og símanúmer inn á augld. DV merkt Beggja hagur 832.“[2]

Eða:

„Ert þú blönk? En átt inni skyldusparnað? Hvað um samhjálp í krísu, þ.e. „sparimerkjagiftingu“. Greiði allan kostnað. Trúnaður. Tilboð sendist DV, merkt D7.“[3]

Oftast lauk kynnum hjónanna þegar að giftingarathöfninni afstaðinni, nema hvað þau þurftu seinna að ganga frá skilnaði. Það gat þó dregist og dæmi voru um að fólk uppgötvaði mörgum árum síðar, þegar það ætlaði að giftast öðrum, að sparimerkjahjónabandið var enn í fullu gildi.

Skyldusparnaður var lagður niður 1993 en nokkru áður hafði undanþága vegna giftingar verið numin úr gildi vegna sparimerkjabrúðkaupa.

TilvísanirBreyta

  1. [1] Dagblaðið, 17. september 1975.
  2. [2] Dagblaðið Vísir, 26. október 1982
  3. [3] Dagblaðið Vísir - DV, 10. febrúar 1989