Skálar var þorp á Langanesi þar sem um tíma var blómlegt fiskimannasamfélag. Þar var löggiltur verslunarstaður árið 1912.Þorsteinn Jónsson kom að Skálum 1910 og stofnaði útgerð með bóndanum á Skálum, smíðaði hús sumarið 1911 og kom á fót verslun. Þegar fjölmennast var þar á þriðja áratug 20. aldar bjuggu í þorpinu um 120 manns en helmingi fleiri á sumrin, þegar vertíð stóð yfir. Árabátaeigendur koma þangað með báta sína og algengt var að Færeyingar stunduðu veiðar þar. Færeyingar seldu lifur í land og keyptu ís til beitugeymslu og kindur á haustin af bændum. Erfið lending var á Skálum, aðeins örmjó ræma undir 10 - 12 m háum lóðréttum hömrum og þurfti að bera allan afla upp á bakka þar og mjög brimasamt. Árið 1929 var reynt að bæta lendingaraðstöðu en það mistókst og varð til að gamla lendingaraðstaðan varð nánast ónýt. Útgerð með vélbátum var líka að aukast en ekki var mögulegt að gera út vélbáta á Skálum. Auk þess skall á heimskreppa árið 1931. Einnig var erfitt að vera þar með útgerð vegna samgangna og samskiptaleysis en enginn sími var þar og tók 2-3 daga að fara á næstu símstöð á Þórshöfn. Nú eru Skálar í eyði.

Íbúum fór að fækka árið 1930 og um 1945 fluttu allir íbúarnir burt en ein fjölskylda flutti þó aftur þangað og bjó þar til 1954, þegar Skálar fóru endanlega í eyði. Enn má sjá þar grunna sumra húsanna, gamla bryggju og ýmsar aðrar minjar. Margar af húsarústunum hafa verið merktar.

Nokkur húsanna urðu fyrir skemmdum af sprengingum vegna tundurdufla sem Bretar lögðu í seinni heimsstyrjöldinni til varnar gegn þýskum kafbátum og er það ein af ástæðum þess að þorpið lagðist í eyði en aðalástæðurnar voru þó breyttir útgerðarhættir, hafnleysi og samgönguleysi en enginn vegur hafði verið lagður að Skálum þegar þorpið fór í eyði. Þrjú tundurdufl sprungu í fjörunni á Skálum. Fyrsta tundurduflið sprakk 26. nóvember 1941 og annað í janúar árið 1942, en ekki eru heimildir um hvenær þriðja duflið sprakk. Rafmagn var aldrei lagt að Skálum.

Heimildir breyta

  • „„Skálar á Langanesi". Gagnasafn Morgunblaðsins, sótt 17. júlí 2011“.
  • Skálar á Langanesi. Merkar minjar horfinna tíma (PDF).
  • Eyðiþorpið Skálar á Langanesi
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.