Sanngjörn viðskipti
Sanngjarnir viðskiptahættir (Fair trade) eru hreyfing og hugmyndafræði sem byggjast á því að milliliðir taki sem minnst til sín af verðmæti vöru þegar verslað er með hana og að framleiðandinn eigi að fá sanngjarnan hlut af því verði sem neytandinn borgar. Jafnframt er reynt að láta framleiðsluna fara fram á eins sjálfbæran og umhverfisvænan máta og hægt er. Aðaláhersla hreyfingarinnar er á útflutning frá þróunarlöndum til þróaðra landa, að landbúnaðarafurðir og handverk komist til kaupenda þannig að sneitt sé hjá stórfyrirtækjum.
Meðvitaða viðleitni til að koma á hnattrænu kerfi sanngjarnra viðskiptahátta má rekja til fimmta og sjötta áratugarins, þegar góðgerða- og hjálparstofnanir byrjuðu að þreifa fyrir sér með milligöngu um viðskipti án milliliða.
Þótt sanngjörnum viðskiptaháttum sé ætlað að gera líf fólks bærilegra, eru þeir gagnrýndir bæði frá hægri og vinstri. Sumir hægrimenn gagnrýna þá fyrir að vera ein tegund niðurgreiðslu eða góðgerðastarfsemi sem hamli hagvexti og hindri eðlilegan vöxt eða þróum hagkerfisins. Sumir vinstrimenn gagnrýna kerfið fyrir að miða að yfirborðskenndum og ófullnægjandi lausnum í stað þess að ráðast á hagkerfið sem slík, sem sé hin eiginlega rót vandans.
Í sanngjörnum viðskiptaháttum er miðað við nokkur grundvallaratriði: Að skapa tækifæri fyrir fólk sem hefur þau ekki; að viðskipta- og framleiðsluferlið sé gegnsætt; að framleiðendur séu sjálfstæðir; að sanngjarnt verð sé greitt fyrir vöruna; að jafnréttis kynjanna sé gætt; að framleiðslan fari fram við mannsæmandi skilyrði og að ekki sé gengið um of á umhverfið.
Sanngjörn viðskipti eru vottuð af nokkrum áháðum alþjóðlegum samtökum: Fairtrade International, The International Fair Trade Association (IFTA), The Network of European Worldshops (NEWS), The European Fair Trade Association (EFTA) og samstarfsstofnun þessara fjögurra, FINE.