Samræmdu prófin (eða samræmdu könnunarprófin) eru könnunarpróf sem haldin eru í íslenskum grunnskólum. Þau voru tekin upp með núverandi sniði haustið 2008[1] og er tilgangur prófanna að meta stöðu nemenda og sjá hvort viðmiðum aðalnámskrár hafi verið náð.[2] Frá 1977 til 2008 voru samræmdu prófin með öðru fyrirkomulagi og með annan tilgang, þá voru þau haldin í lok grunnskóla og voru um tíma notuð til að meta inngöngu í menntaskóla.[1][3]

Könnunarprófin eru lögð eru fyrir fjórða, sjöunda og níunda bekk í íslenskum grunnskólum. Fjórði og sjöundi bekkur tekur próf í íslensku og stærðfræði (að hausti) en níundi bekkur tekur próf í íslensku, stærðfræði og ensku (að vori).[4] Fram til haustsins 2016 voru prófin haldin fyrir tíunda bekk í stað níunda bekkjar.[5] Þá voru prófin líka gerð rafræn.[5]

Menntamálastofnun sér um samræmdu prófin. Kostnaður við samræmdu prófin er um 88 milljónir á ári.[6]

Samræmdu prófin hafa lengi verið hitamál á Íslandi og árlega sprottið upp miklar deilur um nytsemi þeirra og það álag sem þau leggja á nemendur.[1][7]

Samræmd próf voru fyrst lögð fyrir 1929 og þá var prófað í stafsetningu, reikningi og skrift.[1]

Samræmt landspróf var við lýði 1946 til 1976 og var notað til að meta inngöngu inn í menntaskóla.[1]

Samræmdu prófin voru svo haldin í lok grunnskóla 1977 til 2008.[1] Þá voru þau aflögð og könnunarpróf tekin upp í staðinn.[1]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 „Til hvers eru samræmd próf?“. www.mbl.is. Sótt 4. nóvember 2020.
  2. „Samræmdu prófin byrjuðu í morgun“. RÚV. 19. september 2019. Sótt 4. nóvember 2020.
  3. „Þau samræmdu gengu „glimrandi vel". www.mbl.is. Sótt 4. nóvember 2020.
  4. „Af hverju samræmd könnunarpróf? | Menntamálastofnun“. mms.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. október 2020. Sótt 4. nóvember 2020.
  5. 5,0 5,1 „Samræmd próf gerð rafræn og færð í níunda bekk - Vísir“. visir.is. Sótt 4. nóvember 2020.
  6. „1402/148 svar: samræmd próf“. Alþingi. Sótt 4. nóvember 2020.
  7. https://skemman.is/bitstream/1946/1142/1/leidsogn.pdf