Samræktun
Samræktun er í garðyrkju sú aðferð að rækta ólíkar tegundir jurta saman þannig að þær njóti góðs hver af annarri. Samræktun er notuð til að auka upptöku næringarefna, veita skjól og skugga, fæla meindýr og laða að væn dýr. Tilgangurinn með samræktun getur verið að auka framleiðni og minnka þörf fyrir áburð og skordýraeitur.
Dæmi um samræktun eru systurnar þrjár; maís, klifurbaun og kúrbítur, sem frumbyggjar Ameríku hafa ræktað saman um aldaraðir. Maísinn gefur skugga og styður baunagrasið sem klifrar upp langan stilkinn, baunagrasið bindur köfnunarefni í jarðveginum sem hinar jurtirnar nýta sér, og kúrbíturinn ver jarðveginn og heldur frá ýmsum meindýrum með broddhárum á blöðunum. Saman gefa tegundirnar þrjár uppskeru sem er næringarrík fyrir manninn.