Sódóma og Gómorra
Sódóma og Gómorra eru borgir sem koma fyrir í Biblíunni. Íbúar Sódómu voru óforbætanlegir syndarar í augum Drottins, sem ákvað að lokum að tortíma borginni eins og sagt er frá í 19. kafla 1. Mósebókar. Lot, frændi Abrahams, bjó á sléttunni við borgina Sódómu. Þegar útsendarar Drottins komu til Lot bauð hann þeim gistingu þó hann kynni ekki á þeim deili. Íbúar Sódómu komu um nóttina og vildu liggja með mönnunum. Lot hélt yfir þeim hlífiskyldi en bauð þeim þess í stað dætur sínar sem höfðu ekki verið við karlmann kenndar. Í dögun lét Drottinn rigna eldi og brennisteini yfir Sódómu og Gómorru en hlífði Lot.