Síldarminjasafnið á Siglufirði

Síldarminjasafn Íslands er eitt af stærstu söfnum landsins. Þar kynnast gestir hinu stórbrotna og heillandi ævintýri þegar íslenska þjóðin hvarf frá aldalangri fátækt til nútíma velmegunar þar sem síldin lék eitt helsta hlutverkið, enda helsti örlagavaldur Íslands á 20. öld.  Atburðirnir í kringum síldina voru svo mikilvægir fyrir fólkið og landið að talað var um ævintýri – síldarævintýrið. Við hverja höfn, norðanlands- og austan risu síldarbæir stórir og smáir. Siglufjörður var þeirra stærstur og frægastur. Þó norðurlandssíldin sé fyrir löngu horfin ber staðurinn skýr merki hinna stórbrotnu atburða síldaráranna. Síldarminjasafnið stendur vörð um merka fortíð staðarins, þar sem störfuðu um og yfir 10.000 manns þegar mest lét og var kaupstaðurinn sá fimmti stærsti á Íslandi í miðju síldarævintýrinu.


Sýningar safnsins eru í þremur ólíkum safnhúsum þar sem fjallað er um síldveiðar og vinnslu á silfri hafsins.

  • Róaldsbrakki er norskt síldarhús frá 1907. Þar er flest eins og var á árum síldarævintýrisins þegar síldarfólkið bjó þar.
  • Í Gránu er safn um sögu bræðsluiðnaðarins sem löngum hefur verið kallaður fyrsta stóriðja Íslendinga. Þar hefur verið sett upp lítil síldarverksmiðja frá 1930 og framleiðsluferlinu lýst: Síld verður að verðmætu mjöli og lýsi.
  • Í Bátahúsinu liggja skip og bátar við bryggjur og þar er endursköpuð stemning síldarhafnarinnar frá því um 1950. Hákon krónprins Noregs vígði Bátahúsið við hátíðlega athöfn í júní 2004.


Síldarminjasafnið hlaut Íslensku safnverðlaunin árið 2000 er þau voru veitt í fyrsta sinn. Þá fékk safnið Heiðursviðurkenningu Lýðveldissjóðs 1999, Nýsköpunarverðlaun Ferðamálaráðs 1998 og hvatningarverðlaun INVEST 2002.

Árið 2004 hlaut Síldarminjasafnið Evrópuverðlaun safna 2004, þegar það var valið besta, nýja iðnaðarsafn Evrópu.


Opnunartímar eru sem hér segir:

Maí og september: 13 – 17

Júní, júlí og ágúst: 10 – 18

Vetur: Eftir samkomulagi

Tenglar

breyta
   Þessi Íslandsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.