Sæeyra

(Endurbeint frá Sæeyru)

Rautt sæeyra (fræðiheiti: Haliotis rufescens), er stór sæsnigill af sæeyrnaætt og tilheyrir flokki snigla sem er stærsti hópur lindýra. Fjöldi sæeyrnategunda er ekki vitað með vissu og ber flokkunarfræði þeirra ekki saman en algengast er þó talið að tegundirnar séu um 100 í heiminum. Rauðu sæeyrun eru stærstu og algengustu sæeyrun í heiminum í dag.

Sæeyra
Mynd af sæeyra
Mynd af sæeyra
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Lindýr (Mollusca)
Flokkur: Snigill (Gastropoda)
Ætt: Sæeyrnaætt (Haliotidae)
Ættkvísl: Haliotis
Tegund:
Haliotis rufescens

Tvínefni
Haliotis rufescens
Swainson, 1822

Útlit

breyta

Skelin er stór, þykk og ávöl með röð af götum nálægt annarri brún skeljarinnar. Þessi göt eru yfirleitt þrjú til fjögur og er hluti af öndunarfærum lífverunnar. Skelin hefur það hlutverk að vernda innri líffæri og fót. Hún er yfirleitt múrsteins rauð á lit að utan en inní skelinni eru regnbogalitir. Rauð sæeyru geta orðið allt að 30 cm að lengd en algengt er að þau séu um 18-23 cm. Líkamsbyggingu sæeyrna undir skelinni er skipt í höfuð, fót og líffærasekki. Á höfðinu er munnur, útlimir og skynfæri. Fóturinn er vöðvi sem gerir sæeyranu kleift að hreyfa sig og ná góðri fótfestu. Í líffærasekknum eru síðan helstu líffæri sæeyrna: öndunarfæri, meltingarfæri, æxlunarfæri og blóðrásarkerfi. Öndunarfæri sæeyrna eru tálkn og eru þau staðsett undir opnu götunum á skelinni og æxlunarfæri þeirra eru staðsett á hinni hliðinni þar sem götin eru ekki. (Bjarni Eiríksson, 2006 og Fishtech, e.d.)

Heimkynni

breyta

Rauð sæeyru lifa á grýttu svæði þar sem mikið er af þara og finnast frá flæðamörkunum að 100 feta dýpi. Þau eru algengust í sjó þar sem hitastigið er temprað eða um 12-20°C en finnast einnig í kaldari sjó. Búsvæði þeirra eru við strendur Norður-Ameríku, Nýja Sjálands, Suður-Afríku, Ástralíu og við Japan. (Bjarni Eiríksson, 2006)

Hættur stofnsins

breyta

Aðalástæður fyrir minnkun stofnsins er vegna ofveiði, afráns og sjúkdóma. Sjúkdómurinn “Withering syndrome” hefur lítil áhrif á tegundina í heild en er þrátt fyrir það framsækinn og hættulegur sjúkdómur sem hefur ekki verið rannsakaður í þessari tegund sæeyrna. Mest hefur verið tekið eftir sjúkdómnum í sæeyrna eldi og sérstaklega þar sem sjórinn hefur hitnað. Sæotrar éta sæeyrun og er hægt að sjá áhrif þeirra á þéttleika, stærð og hegðun tegundarinnar. (Ecology and Evolutionary Biology, e.d.)

Menn hafa notað sæeyru frá því á forsögulegum tíma og hafa fundist skeljar á fornleifastöðum sem hægt er að rekja um 12.000 ár aftur í tímann. Þau eru þó algengari í uppgröftum á Norður – Channel eyjunum og eru þær skeljar dagsettar fyrir um 7.500 og 3.500 árum síðan. Fornir indíánar söfnuðu rauðu skeljum sæeyrnanna til að búa til ýmsa króka, perlur, skraut og aðra muni. (Wikipedia, 2014)

Þar sem flestum villtum stofnum sæeyrnanna hefur verið eytt þá hefur sæeyrna eldi þróast vel og er orðið árangursríkt sjávareldi. Tilraunir til ræktunar hófust í Kaliforníu árið 1960 og urðu að farsælum viðskiptum árið 1980. Rauð og græn sæeyru eru einu sæeyrun sem eru ræktuð í eldi í stórum stíl í Kaliforníu. (Ecology and Evolutionary Biology, e.d.)

Eldi á Íslandi

breyta

Árið 1988 í Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknarstofnunar á Stað við Grindavík voru flutt inn rauð sæeyru frá Kaliforníu að frumkvæði Ingvars Níelssonar verkfræðings. Fyrstu rauðu sæeyrun voru síðan framleidd hér á landi árið 1991 og tveimur arum seinna var stofnað fyrirtækið Sæbýli hf. og á vegum þess voru flutt inn um 600 dýr af grænu sæeyra. Eldið hjá Sæbýli hófst á árinu 1994 en fyrsta framleiðsla var árið 1998 þegar framleidd voru um eitt tonn af sæeyrum. Framleiðslan jókst á árunum eftir 1998 og náði hámarki eða tæpum 25 tonnum árin 2001 og 2002. Eftir það minnkaði framleiðslan mikið og nam einungis nokkrum tonnum á ári þangað til að hún lagðist alveg niður. Sæeyrun voru flutt út lifandi og þá aðallega til Japans en einnig örlítið til Bretlands. Mest var flutt út árið 2002 eða um 25 tonn og nam útflutningsverðmæti 60 milljónir króna en árið 2003 voru einungis flutt út 6,5 tonn og var útflutningsverðmætið þá aðeins 13 milljónir króna. (Fiskeldishópur AVS, e.d.) Á fyrstu árunum eftir að rauðu sæeyrun voru flutt í Tilraunaeldisstöð Hafró þá var unnið að fjölgunartilraunum, fóðrunar- og vaxtartilraunum. Fóðurverksmiðjan Laxá hf. í samstarfi við Sæbýli hf. og Hafró vann að þróun á þurrfóðri fyrir sæeyru og Stofnfiskur hf. og Hafró unnu að rannsóknum á erfðabreytileika sæeyra. Hérna eru dæmi um rannsókna- og þróunarverkefni sem lokið hefur verið við eftir 1995:

• Sæeyrnaeldi - lækkun framleiðslukostnaðar með kynbótum. Hafrannsóknastofnun, Sæbýli hf Veiðimálastofnun, Stofnfiskur hf. Styrkt af RANNÍS.

• Þurrfóður fyrir sæeyra: Samstarfsverkefni Fóðurverksmiðjunnar Laxá og Haliotis á Íslandi ehf. Styrkt af Impru.

• Þaulnýting vatns og varma í sæeyrnaeldi. Iðntæknistofnun Íslands, Sæbýli og Efnagreiningar á Keldnaholti. Styrkt af RANNÍS.

• Vöxtur og fóðurnýting sæeyrna á tilbúnu fóðri. Fóðurverksmiðjan Laxá, Sæbýli hf. og Hafrannsóknastofnun. Styrkt af RANNÍS

Í dag er Sæbýli ehf. með sæeyra í eldi á Eyrarbakka og í Þorlákshöfn.

Heimildir

breyta
  • Bjarni Eiríksson. (2006). "Þurrfóður fyrir sæeyru". BS-ritgerð: Háskólinn á Akureyri, Auðlindadeild. Sótt 30. september af [1]
  • Ecology and Evolutionary Biology. (e.d.). "Haliotis rufescens (Red Abalone)". Sótt 22. september 2014 af [2]
  • Fishtech (e.d.). "Red Abalone – Halotis rufescens". Sótt 22. september 2014 af [3] Geymt 7 apríl 2015 í Wayback Machine
  • Fiskeldishópur AVS. (e.d.) "Sæeyra". Sótt 30. september 2014 af [4] Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine
  • Wikipedia. (2014). "Red Abalone". Sótt 23.september 2014 af en:Red_abalone