Rube Goldberg vél
Rube Goldberg vél er útbúnaður þar sem keðjuverkun er notuð til að framkvæma einfalt verk og þannig að einfalt verk er framkvæmt á mjög flókinn hátt. Slík vél er kennd við bandaríska skopmyndateiknarann Rube Goldberg sem teiknaði margar myndir af slíkum vélum. Hann var verkfræðingur sem eftir nám vann við að teikna upp holræsakerfi og vatnsbrunna í San Francisco en gerðist seinna skopmyndateiknari dagblaða. Hann nýtti verkfræðibakgrunn sinn til að teikna skopmyndir af uppfinningum þar sem einfaldur hlutur var framkvæmdur í mörgum þrepum. Þessar myndir urðu vinsælar og þekktar og árið 1931 var lýsingarorðinu Rube Goldberg bætt við Merriam-Webster orðasafnið með merkinguna að gera á flókinn hátt það sem virðist hægt að gera á einfaldan hátt.