Rimar er fjall við utanverðan Svarfaðardal að austanverðu. Rimar eru mikið fjall og hátt, 1371 m þar sem hæst ber við innanverðan Hofsdal. Norðar á háfjallinu er stór og vel gerð landmælingavarða, hún er í 1265 m yfir sjávarmáli. Norðan við Rimar eru Messuhnjúkur og Vallafjall en sunnan þeirra er Sælukolla. Fjallið tekur nafn af rindum eða hryggjum sem liggja upp og ofan háhlíðar þess og setja á það einkennandi svip. Stærsti rindinn nefninst Stóririmi. Fjallganga á Rimar er allmikil ganga en ekki torsótt. Fjallið er tiltölulega flatt að ofan og ekki með hnjúkum eða tindum. Það er að mestu úr basalti. Best er að ganga á Rimar frá Hofi í Svarfaðardal upp með Hofsá, þar sem Goðafoss beljar í gljúfrum, og upp eftir hinu fagurskapaða berghlaupi Hofshólum, upp með Hofsskál og þaðan á fjallsöxlina sunnan við Messuhnjúk og á háfjallið. Nafnið Rimar er ýmist haft í karl- eða kvenkyni. Félagsheimili Svarfdælinga, Rimar, heitir eftir fjallinu.

Vallafjall, Messuhnjúkur og Rimar. Berghlaupið Hofshólar og Hofsskál eru á miðri mynd. Bæirnir Hof og Hofsá eru sitt hvoru megin við Hofsána sem fellur í gljúfri úr Hofsdal

Heimild breyta

  • Bjarni E. Guðleifsson 2011. Svarfaðardalsfjöll. Genginn fjallahringurinn umhverfis Svarfaðardal. Bókaútgáfan Hólar, 191 bls.